Frostbiter: Metnaðarfull hryllingsmyndahátíð á Akranesi

„Menningarlífið á Akranesi er að dafna vel og þar sem ég er Skagamaður þá langaði mig að taka þátt í því,“ segir hinn þrítugi Ársæll Rafn Erlingsson sem stendur að Frostbiter kvikmyndahátíðinni ásamt unnustu sinni Lovísu Halldórsdóttur. Hátíðin stendur yfir dagana 24.-27. hóvember og þar verða hryllingsmyndir rauðir þráðurinn á hátíðinni. Ársæll gerir ráð fyrir að fjölmargir ferðamenn leggi leið sína á hátíðina sem gæti orðið fastur liður á Akranesi.

screen-shot-2016-05-18-at-19-12-59
Ársæll Rafn Erlingsson einbeittur við leik í hryllingsmynd.

„Ástæðan fyrir því að við förum af stað með þetta verkefni er að Lovísa hefur gert þrjár stuttmyndir í hryllingsmyndaflokknum. Hún hafði mikinn áhuga á að láta þetta gerast. Ein af þessum myndum hefur náð töluverðri athygli erlendis. Það eru ekki mörg tækifæri sem gefast til að kynna slíkar myndir og við ákváðum að setja á laggirnar hryllingsmyndahátíð. Sérstaðan er mikil og að mínu mati fullkomin viðbót við þá viðburði sem eru í gangi hérna í þessum skemmtilega bæ allt árið,“ segir Ársæll þegar hann er inntur eftir sögunni á bak við hátíðina.

14918737_1800887973527081_5839998807104666840_o

Hryllingsmyndir virðast alltaf ná vinsældum og segir Ársæll að þörfin fyrir að koma sér úr jafnvægi sé alltaf til staðar. „Áhuginn kemur í bylgjum og það er uppgangur í þessum flokki núna enda er margt áhugavert í gangi.“

Frostbiter hátíðin átti í fyrstu að vera lítið verkefni en hefur aðeins undið upp á sig. „Við fengum sendar inn um 200 stuttmyndir og það var ekki létt að velja. Við erum með gott úrval sem sýnt verður á hátíðinni. Þar verða 35 myndir frá öllum heimshornum. Sýningarnar verða í Bíóhöllinni og Tónbergi, sal tónlistarskólans á Akranesi, en í þeim sal verður frítt inn fyrir gesti. „Ég er mjög spenntur fyrir sýningunum í Tónbergi en þar er mjög gott hljóðkerfi en hryllingsmyndir eru mikið byggðar upp á góðu hljóði.“

Við fengum sendar inn um 200 stuttmyndir og það var ekki létt að velja.

Stóru molarnir á hátíðinni verða sýndir í fullri lengd í Bíóhöllinni.

„Ég er mest spenntur fyrir myndinni Child Eater en það er íslenskur leikstjóri og eftir sýninguna verður hann með erindi fyrir gesti. Við verðum líka með Night of the living dead í Sementsverksmiðjunni – og þar verður boðið upp á eitthvað óvænt. Það eru m.a tvær myndir á hátíðinni sem hafa verið á hátíðum út um allan heim og þetta verður mjög spennandi dagskrá.“

Samhliða hátíðinni verður boðið upp á fyrirlestur og námskeið í Þorpinu með norskum sérfræðingum sem sáu um áhættuatriðin í Dead Snow myndunum. „Það er ekki hægt að sleppa því að fara á námskeið í „How to kill a Nazi/Zombie/hack and slash,“ segir Ársæll sem á sér þann draum að fá sem flesta Skagamenn til að koma og njóta hryllingsins.

Ég hef fundið fyrir miklum áhuga á Akranesi

„Ég hef fundið fyrir miklum áhuga á Akranesi og held að það geti skapast fín stemmning á hverju ári fyrir hátíðinni. Við erum þó að búast við að flestir komi úr Reykjavík og þar á meðal útlendingar sem þá sjá hvað Akranes hefur uppá að bjóða. Það skemmtilega við hrollvekjur er hversu breiður hópur fólks horfir reglulega á þær. Hryllingsmyndir eru svo misjafnar. Það eru svo margar týpur; við erum með gore, drauga, skrýmsli, fólk að gera ógeðslega hluti og svo mætti lengi telja.

Allir hafa skoðanir á hryllingsmyndum

Allt snýst þetta samt um að vekja viðbrögð og þau eru misjöfn eftir fólki, hvað þú ert að horfa á og stemmningu. Allir hafa skoðanir á hryllingsmyndum, hvort sem fólk elskar þær, skilur ekki hvers vegna einhver vill horfa á þær eða bara hreinlega hatar þær. Það finnst mér skemmtilegt, þú getur alltaf dottið í samræður við einhvern um hryllingsmyndaflokkinn útaf því að skoðanirnar eru svo misjafnar.“

Ársæll segir að hann hafi sjálfur verið afskaplega hræddur við drauga og vætti sem barn.

Ársæll segir að hann hafi sjálfur verið afskaplega hræddur við drauga og vætti sem barn. Hann útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands s.l. vor og lokaverkefnið sem hann valdi sér var hryllingsmynd.
„Mín leið inní hryllingsmyndaheiminn var kannski ekki alveg einsog flestra. Ég var ofboðslega hræddur við drauga, vætti og skrýmsli sem barn og þorði ekki að horfa á hryllingsmyndir. Ég sá Edward Scissorhands þegar ég var kringum 7 ára aldurinn og var lengi að jafna mig á því. Ég er með fjörugt ímyndunarafl og dreymdi að Edward væri að koma og ná í mig margar nætur í röð. Ég veit alveg núna að þessi mynd er varla hrollvekja, ég þorði að horfa á hana síðustu jól og fannst hún stórfín. Ég var lengi að spá í hvernig útskriftarmynd ég vildi gera. Það kom upp hugmynd að gera hrollvekju. Ég er frekar myrkfælinn og ekki mikið búinn að vera að horfa á hryllingsmyndir en þegar hugmyndin kom þá kom ekkert annað til greina. Ég fór að horfa á hryllingsmyndir í meiri mæli en konan mín er mikill hryllingsmyndaaðdáandi og gat sýnt mér þetta helsta.“

stillahrellirlovy

Ættfræðitréð:

Ársæll Rafn Erlingsson, fæddur 1986 á Akranesi. „Konan mín heitir Lovísa Lára Halldórsdóttir og er frá Kópavogi. Við erum búin að finna húsnæði á Akranesi og eru að flytja á Akranes til frambúðar á næstu vikum.
Ég ólst upp að mestu upp á Suðurgötu 35 Nýlendu, og Laugarbraut 17. Biskupstungurnar eiga alltaf samt smá í mér, var þar í sveit á Drumboddsstöðum lengi og finnst nauðsynlegt að komast í fjósið öðru hvoru. Ég var í Brekkubæjarskóla í 10 ár, staldraði stutt við í FVA og byrjaði að læra leiklist 28 ára gamall.
Mamma mín er Þóra Gunnarsdóttir verkakona/hetja í Álverinu Grundartanga og pabbi minn er Erlingur Smári Rafnsson rútubílstjóri/snillingur. Mamma er fædd og uppalin í Borgarholti á Mýrum, Snæfellsnesi.  Pabbi er Borgnesingur meðfram því að vera snillingur.
Ég á alveg haug af systkinum og þau eru öll jafn frábær, ég held að ég hafi dottið gjörsamlega í lukkupottinn með þau. Gunnar Árni 35 ára, Ingibjörg Eyja 32, Kristín Anna 27 og Alexander Smári 16 ára.