Viðtal við Magnús Brandsson sem breytti um stefnu í lífsmynstrinu og hefur aldrei liðið betur
Ef ég á að gefa góð ráð fyrir þá sem vilja rífa sig í gang þá er að byrja á að setja sér markmið og koma því á framfæri við vini og ættingja til að þeir veiti manni aðhald. Einnig er mikilvægt að hafa með sér félaga,“ segir Skagamaðurinn Magnús Brandsson sem breytti um áherslur í lífi sínu árið 2013 og hóf hann að hreyfa sig meira en áður. Göngur og golf eru rauði þráðurinn í hreyfimynstri „Magga Brands“ en hann er útibússtjóri Íslandsbanka á Akranesi.
Skagafréttir ræddu við Magnús á dögunum þar sem að hreyfingin var aðalumræðuefnið. Fimmtugsafmælið kveikti neistann og gönguferðirnar á Akrafjallið eru í dag orðnar margar.
Hvenær byrjaðir þú að hreyfa þig meira og hver var ástæðan?
„Ég byrjaði að ganga á Akrafjall í febrúar á árinu 2013, árið sem ég varð 50 ára. Ástæðan fyrir því að ég fór af stað er að ég var komin í yfirþyngd og að ég fór á námskeið í janúar um breytt mataræði og hreyfingu. Það námskeið var vakning fyrir mig. Litli bróðir (Kristleifur Brandsson) var búinn að tala um að fara jafnmargar ferðir á fjallið eins og aldur hans væri. Ég stal þessari hugmynd og gerði að minni. Í byrjun þá ætlaði ég að taka 50 ferðir yfir árið en þegar leið að afmælinu, sem er 8.júní, sá ég að ég gæti farið ferð nr. 50 á afmælisdaginn. Til þess þurfti ég að fara a.m.k. tvisvar sinnum tvær ferðir á dag til að ná markmiðinu. Ég sagði þegar ég fór ferð nr. 25 að ef mér tækist að fara ferð nr. 50 á afmælisdaginn minn þá færi ég þá ferð í sparifötunum. Að sjálfsögðu stóð ég við það og fékk ég um 30 vini mína til að ganga með mér afmælisgönguna.
Ástæðan fyrir því að ég fór af stað er að ég var komin í yfirþyngd
Magnús dregur ekkert úr því að byrjunin var erfið á þessu ferðalagi sem er ekki lokið.
„Það var tölvert átak í byrjun þar sem líkaminn var nokkuð lúinn eftir fyrstu ferðarnar. Ég ákvað strax að setja á facebook takmarkið mitt um 50 ferðir. Það gerði ég til að veita sjálfum mér aðhald. Þegar maður er búinn að opinbera takmarkið þá er maður með fjölda fólks til að halda manni við efnið. Það sem líka er gott við það að hreyfa sig reglulega að þá bætir maður ósjálfrátt mataræðið líka sem skiptir miklu. Þegar ég byrjaði að fara á fjallið þá var ég á blóðþrystingslyfjum. Ég fann fyrir ýmsum kvillum eins og verkjum fyrir brjósti, ég var sljór og alltaf þreyttur. Allt þetta breyttist eftir að ég byrjaði á fjallinu. Ég gat hætt á lyfjunum og varð mun kraftmeiri. Konan mín hvatti mig ávallt til að fara á fjallið þar sem hún sagði að ég væri aldrei duglegri í heimilsverkunum en þegar ég kæmi af fjallinu.“
Og árangurinn skilaði sér fljótt í betri líðan hjá Magnúsi.
„Það var ótrúlegt hvað árangurinn kom fljótt. Ég fann stóran mun á mér eftir bara tvær vikur og held því fram að ég hafi yngst um mörg ár. Þannig var upplifunin.
Ég fann stóran mun á mér eftir bara tvær vikur og held því fram að ég hafi yngst um mörg ár.
Á árinu 2013 fór ég 61 ferð á fjallið, árið eftir bætti ég aðeins í og fór alls 104 ferðir. Árið 2015 49 ferðir. Áætlun fyrir 2016 er 53 ferðir og það eru komnar 48,“ sagði Magnús þegar viðtalið var tekið.
Magnús segir að fjallgangan sé ótrúlega góð fyrir sálina ekki síður en líkamann.
„Það er fátt sem toppar það að hlusta á niðinn í Berjaldalsánni og þögnina á veturna. Yfir sumartímann mávinn, krummann og rjúpuna. Ég vil ekki að vera með tónlist í eyrunum heldur hlusta á náttúruna. Tónlistinn á ekki við í fjallgöngunni að mínu mati“
Það er fátt sem toppar það að hlusta á niðinn í Berjaldalsánni og þögnina á veturna
Akrafjallið lokkar Magnús til sín á hverjum degi enda sér hann það í hvert sinn sem hann fer í og úr vinnu.
„Fjallið togar í mann og ef maður drífur sig eftir góðan dag í vinnunni þá er dagurinn fullkomnaður. Þegar ég byrjaði þá voru nokkrir sem sögðu við mig að þegar ég væri búinn að ganga þessar 50 ferðir færi ég aldrei aftur á fjallið. En það hefur ekki orðið raunin.“
Magnús hefur tekið golfíþróttina föstum tökum eftir að hann uppgötvaði þá frábæru íþrótt. Fjallgöngurnar hafa aðeins látið undan golfinu á undanförnum sumrum og er góða veðrið á Flórída-Skaganum helsta ástæðan fyrir færri ferðum á fjallið.
„Ég hef undanfarin þrjú ár ætlað að vera duglegur að ganga á fjallið á sumrin þ.e. á rigningardögum og vera í golfinu á sólardögum. Þessi s.l. þrjú ár eru búin að vera þannig að golfið hefur tekið yfir þar sem veðrið er búið að vera ótrúlegt hér á Flórída-Skaga. Þannig að fjallið hefur verið vetrarsportið og golfið sumarsportið. Golfið er ótrúlega skemmtilegt og hvet ég alla að próf, það er aldrei of seint að byrja.
Golfvöllurinn okkar, Garðavöllur, er einn sá besti á landinu og að rölta í tvo til fjóra tíma í góðum félagsskap eru algjör forréttindi. Það góða við golfið er að það spila allir á jafninga grundvelli þar sem spilað er á mismunandi forgjöf eftir getu.“
Magnús segir að það sé mikilvægt að fá vini og fjölskyldu til þess að rífa sig með í hreyfinguna. Og það sé gott að láta alla vita af því á samfélagsmiðlum – því það veiti gott aðhald.
Garðavöllur, er einn sá besti á landinu
„Ef ég á að gefa góð ráð fyrir þá sem vilja rífa sig í gang þá er að byrja á að setja sér markmið og koma því á framfæri við vini og ættingja til að þeir veiti manni aðhald. Einnig er mikilvægt að hafa með sér félaga. Það hefur oft komið fyrir hjá mér að finnast maður svo þreyttur eftir vinnu að maður hefur sig ekki af stað en þá kemur hringing frá félaganum sem í mínu tilviki er litli bróðir og drífur mann af stað. Maður finnur muninn þegar ef maður hefur verið latur í hreyfingu að slenið og verkirnir eru fljótir að birtast.
Það hefur oft komið fyrir hjá mér að finnast maður svo þreyttur eftir vinnu að maður hefur sig ekki af stað en þá kemur hringing frá félaganum sem í mínu tilviki er litli bróðir og drífur mann af stað. Maður finnur muninn þegar ef maður hefur verið latur í hreyfingu að slenið og verkirnir eru fljótir að birtast.
Aldur er afstæður og undir manni sjálfum hvort maður heldur sér í formi
Aldur er afstæður og undir manni sjálfum hvort maður heldur sér í formi og ef maður er í formi þá breytir aldurinn engu máli. Muna að þar er aldrei of seint að byrja. Það er ekki sjálfgefið að geta hreyft sig og haldið heilsu. Lífið er það stutt að maður verður að fá það mesta út úr því og þá skiptir góð heilsa öllu máli. Gott mataræði, góður svefn og hreyfing er þau þrjú atriði sem ég held fram að séu lykill að góðri heilsu,“ sagði Magnús Brandsson göngugarpur og kylfingur.