Svenna dreymir um gott „gigg“ í Bíóhöllinni

Viðtal við Sveinbjörn Hafsteinsson Fjallabróðir sem á eitt frumsamið lag á nýrri plötu kórsins

„Tónlistin hefur alltaf átt nokkurn stóran hluta af mér. Ég man eftir mér syngjandi hin og þessi söngleikjalög heima með mömmu og systur minni þegar ég var lítill „Svennalingur“ á Skaganum. Hákon bróðir var einnig duglegur að ýta að manni Bítlunum og fræða mann um margt. Ég og Leifur Jónsson æskuvinur minn vorum snemma einu strákarnir í kórnum hjá Dóru í Brekkubæjarskóla og höfum alla tíð tengst í gegnum tónlist,“ segir hinn 34 ára gamli Sveinbjörn Hafsteinsson sem hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn með hinu eina sanna karlakór Fjallabræðra.

Svenni flutti frá Akranesi þegar hann var 18 ára gamall en hann bjó í eitt ár í Borgarnesi áður en hann flutti til Reykjavíkur.

Alls eru um átta félagar í Fjallabræðrum sem eru Skagamenn

„Ég hef alltaf verið þakklátur fyrir að hafa kynnst fólki sem ýtti mér í rétta átt. Tónmenntin hjá Flosa í Grundaskóla var frábær og kveikt neista í mér. Í Fjölbrautaskólanum á Akranesi voru ýmsir viðburðir sem héldu mér við efnið, hæfileikakeppnir, uppsetningar á söngleikjum og leiklistarklúbbar. Mér fannst árin í FVA vera yndislegur tími.“

„Bíóhöllin á Akranesi er einstakur tónleikastaður. Ég hef haft þann draum að troða einhverntíma þar upp. Ég læt verða af því, hvort sem það verður með Fjallabræðrum eða með mitt eigið efni.“

Bíóhöllin á Akranesi er einstakur tónleikastaður

Alls eru um átta félagar í Fjallabræðrum sem eru Skagamenn og þar kemur tengingin við Svenna og þann ágæta kór. „Leifur Jónsson vinur minn var hljómborðsleikari í hljómsveit Fjallabræðra og hann bauð mér að koma á æfingu árið 2009. Ég fann að þetta var eitthvað fyrir mig, karlar og Unnur fiðluleikari að koma saman með það eitt að syngja, hafa gaman og njóta. Þetta er bara ótrúlega skemmtilegt og svolítið sturlað. Það er t.d. ekki mörgum sem dettur í hug að fara með 70 manna hóp til London og taka upp plötu á þremur dögum í sögufrægasta hljóðveri heims.“

Fjallabræður gáfu nýverið út nýja plötu sem tekin var upp í Abbey Road hljóðverinu þar sem margar af þekktustu hljómplötum allra tíma hafa verið teknar upp. Má þar nefna nánast öll verk eftir Bítlana á árunum 1962-1970. Svenni á nú lag sem tekið var upp í þessu heimsfræga hljóðveri.

fjallaabbey2„Að ganga inn í þetta sögufræga hús var ógleymanlegt. Þar sáum við myndir á veggjum af listamönnum sem við þekkjum öll. Það var áhrifaríkt að upplifa þetta og vera í sömu erindum og þessir heimsfrægu listamenn. Móttökurnar sem við fengum voru vingjarnlegar hjá starfsfólkinu og það besta er að Skagakonan Guðbjörg Friðbjörnsdóttir er starfsmaður þar í eldhúsinu. Hún vissi nákvæmlega hvað við þurftum. Samstarfsfólk hennar var hissa á öllum þeim mat og drykk sem hún pantaði þegar hún vissi að við værum að koma. Allt aukabeikonið og drykkirnir fóru svo sannarlega ekki til spillis. Þetta kláraðist allt og barinn var tómur eftir lokakvöldið.“

Það besta er að Skagakonan Guðbjörg Friðbjörnsdóttir er starfsmaður þar í eldhúsinu

Nýja platan heitir „Og þess vegna erum við hér í kvöld“ sem er að sjálfsögðu titillagið. Sveinbjörn segir að ólýsanleg stemmning hafi myndast hjá kórnum við upptökurnar,.

„Við vorum þvílíkt einbeitt. Það var mikil virðing fyrir verkefninu og aðstæðunum sem við vorum í. Ég lærði mikið á þessu ferðalagi sem tónlistarmaður og persóna.

Það voru reynsluboltar á borð við Magnús Þór Sigmundsson með í för og hann aðstoðaði mig ásamt fleirum. Ég er honum endalaust þakklátur fyrir það.“

fjallaabbey3
Svenni segir að undir lok upptökuferilsins hafi skapast ein sú fallegasta stund sem hann hafi upplifað.

„Þegar síðasti tónninn var sleginn má fullyrða að hver einasti okkar hafi verið grátandi. Það var þakklæti fyrir þessar aðstæður sem við vorum í. Þessi hópur hafði tekið upp heila plötu í þessu húsi. Þetta var einstakt, einstakur hópur og einstök stund.“

Á plötunni er eitt frumsamið lag eftir Sveinbjörn Hafsteinsson og heitir það Faðmlag.

„Ef það er eitt sem einkennir okkur Fjallabræðurna þá föðmumst við alveg innilega í hvert sinn sem við hittumst. Þetta lag kom til mín þannig – ég varð að semja lag um þetta fyrirbæri. Lagið kom í einni bunu heima í stofu í febrúar eitthvert kvöldið.

Ég fór með Halldóri Gunnari kórstjóra í vor á rúntinn og hann fékk að heyra frumútgáfuna af þessu lagi. Hann spurði hvort við gætum ekki notað þetta í London og tekið það upp í Abbey Road. Mér fannst þetta vera fjarstæðukennt – að lag eftir mig væri tekið upp í þessu hljóðveri.

akrafjallaabbey
Skagamenn úr Fjallabræðrum á tröppunum við Abbey Road.

Í textanum er ég að lýsa því hvernig það er að faðma barnið sitt

Skagamennnirnir í Fjallabræðrum: Efri röð frá vinstri: Guðmundur Jón Hafsteinsson, Jóhann Hafsteinn Hafsteinsson, Júlíus Björgvinsson. Neðri röð frá vinstri : Björn Þorri Viktorsson, Sigurður Arnar Jónsson, Sveinbjörn Hafsteinsson, Ólafur Páll Gunnarsson. Á myndina vantar Jónas Björgvinsson sem var ekki með í ferðinni. 

Magnús Þór aðstoðaði mig við að klára textann og færa í endanlegan búning. Í textanum er ég að lýsa því hvernig það er að faðma barnið sitt. Sú einstaka tilfinning sem felst í því að vera uppí sófa með vænghaf barnsins utan um sig á meðan það sofnar og ferðast í ró inn í draumalandið.“

Platan, „Og þessvegna erum við hér í kvöld“ kemur út á næstu dögum og ætti að vera til sölu í Eymundsson á Akranesi í lok vikunnar. Sveinbjörn hefur samið töluvert af lögum og er hægt að fylgjast með þeirri þróun á fésbókarsíðunni facebook.com/SveinbjornMusic en þar hefur hann m.a notað myndefni frá Akranesi í myndbandi við eitt laga sinna.

Sveinbjörn hefur ekki átt heima á Akranesi í mörg ár en hann segir að það færist yfir hann ró þegar hann kemur á æskustöðvarnar.

Ég fæ oft þá tilfinningu að Skaginn togi í okkur

„Það eru margir vinir og ættingjar á Skaganum og við reynum að koma sem oftast. Ég fæ oft þá tilfinningu að Skaginn togi í okkur og þangað ættum við að flytja – það er aldrei að vita hvað gerist. Það er ró og friður yfir Skaganum og ég sakna þess.“

 

 

Ættfræðitréð:
Sveinjörn Hafsteinsson 34 ára. Unnusta; Drífa Baldursdóttir, börnin eru þrjú; Benedikt 15 ára, Hildur Arney 11 ára og Jóhanna Karen 9 ára. Sveinbjörn starfar hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP Games sem Database Administrator. Móðir hans er Hafdís Hákonardóttir og faðir hans er Hafsteinn Baldursson. Systkini Svenna eru: Ragnheiður og Hákon Baldur.

img_0645
Fjölskyldumyndin:

fjallaabbey6 fjallaabbey7 fjallaabbey8