„Það var geggjað að upplifa það að fara í kaffi til Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og ég mæli með því að allir taki þátt í þessum leik á næsta ári,“ segir Skagamaðurinn Eiður Andri Guðlaugsson en hann virðist aldrei upplifa leiðinlega daga á Akranesi.
Eiður, sem er 17 ára gamall nemandi í FVA, fékk óvænt tækifæri til þess að hitta á Guðna forseta eftir að hafa tekið þátt í leik á netinu.

Geggjað að fá að ræða
við forsetann
„Ég sá auglýsingu þar sem net-forvarnadagurinn var auglýstur. Ég svaraði öllu rétt um þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum, spurningum um Skátafélag Íslands og einnig Ungmennafélag Íslands.
Við vorum sex sem vorum með þetta allt rétt og verðlaunin voru afhent á Bessastöðum. Það var geggjað að fá að ræða við forsetann, skoða Bessastaði og upplifa þetta allt saman,“ segir Eiður en hann er í hópi fjölmargra unglinga sem stundar heilbrigt líferni á Flórída-Skaganum.
„Ég er hef mikinn áhuga á íþróttum og hreyfingu. Ég er á náttúrufræðibraut við FVA og ég stefni á að fara í íþróttafræðina í háskóla. Það er einnig möguleiki að fara í lýðháskóla og margt sem ég er að hugsa um,“ segir Eiður en hann æfir Bootcamp og karate, en hefur áhuga á að reyna sig í CrossFit. Því miður er ekki hægt að æfa CrossFit á Akranesi en mig dreymir um að komast á heimsleikana sem keppandi í framtíðinni. Áhuginn er það mikill að ég safnaði í lið til að taka þátt í þrekmóti á vegum framhaldsskólana“ bætir Eiður við.
Dreymir um að komast á heimsleikana
Hreyfing er ekki það eina sem Eiður stundar en hann blæs af krafti í saxófóninni og strýkur strengina á gítarnum þegar hann er í stuði.
„Ég hef spilað á hljóðfæri frá því ég man eftir mér. Við vinirnir Kristinn Bragi erum með hljómsveit sem kallast Ösp. Við ætlum okkur að taka þátt í Músíktilraunum einhverntíma,“ sagði Eiður Andri Guðlaugsson.
Ættartréð:
Eiður Andri er fæddur árið 1999. Foreldrar hans eru Guðlaugur Ingi Maríasson og Drífa Gústafsdóttir. Hann á fjögur systkini: Elsa María, Guðmundur Freyr, Arnaldur Ægir og Eydís Glóð.