Nýtt upphaf í körfunni – frítt inn á föstudaginn

„Það verður mikið um að vera á föstudaginn á Akranesi og einn af hápunktunum er leikur ÍA gegn Hetti frá Egilsstöðum í 1. deild karla í körfubolta. Frítt er inn á leikinn og hann verður einnig sýndur í beinni á ÍATV,“ segir Örn Arnarson stjórnarmaður hjá Körfuknattleiksfélagi Akraness í samtali við skagafrettir.is.

Örn segir að staðan á körfuboltaliðinu sé áhugaverð og þá sérstaklega að félagið horfi 5-6 ár fram í tímann með liðið og uppbyggingarferli er í gangi.

„Það er góð staða á félaginu í heild sinni, mikil fjölgun í yngri flokkunum og það eflir bjartsýni á framtíð félagsins. Meistaraflokkurinn hefur vakið athygli undanfarin ár og eitt af markmiðum okkar í stjórninni var að koma körfuboltanum aftur á kortið á Akranesi.“

Örn Arnarson.
Örn Arnarson.

Í vetur er markmiðið að gefa ungum leikmönnum tækifæri til þess að þroskast segir Örn.

„Það er stór hópur í yngri flokkunum sem mun verða uppistaðan í mfl. eftir um 5 ár og við ætlum að undirbúa þá sem eru í dag fyrir þá tíma. Eldri leikmenn liðsins eru ekki eilífir í þessum bransa og við verðum að bregðast við með þessum hætti. Það eru tveir þjálfarar við störf í mfl. þeir Jón Þór Þórðarson og Stefán Hreinsson. Þeir eru með mfl. og einnig B-liðið og þeirra hlutverk er að veita þessum ungu strákum eins mikinn stuðning og hægt er.

Örn segir að markmið félagsins sé að vera með sjálfbært lið sem geti keppt í efstu deild á Íslandi. Það þýðir að við getum byggt upp og endurnýjað liðið innan okkar raða án þess að treysta á að kaupa leikmenn. Gengi liðsins hefur verið misjafnt og upphafið á Íslandsmótinu var erfitt.

Markmið félagsins er að búa til sjálfbært lið sem keppir í efstu deild á Íslandi

„Nýtt lið, ungir leikmenn, og meiðsli lykilmanna hefur sett þetta aðeins í aðra stöðu. Í undanförnum leikjum höfum við loksins náð að stilla upp okkar sterkasta liði og unnið tvo í röð. Við erum því óhræddir við að vera bjartsýnir fyrir afganginn af tímabilinu. Það er stutt upp í 5. sætið sem er ávallt markmiðið hjá okkur og komast þar með í úrslitakeppnina,“ segir Örn jólagjöf KFÍA til Skagamanna í ár verður frítt á völlinn gegn Hetti.

„Höttur er á toppnum og þetta verður erfiður leikur. Það verður margt í gangi á leiknum. Félag Englaforeldra á Akranesi fær afrakstur sölu yngri flokka á Bleiku slaufunni. KFÍA var með Bleiku slaufuna á búningum félagsins í október í öllum leikjum. Þetta er síðasti leikurinn fyrir jólafrí og langt í þann næsta – ég veit ekki hvað er betra en körfuboltaleikur á föstudagskvöldi og henda sér síðan í JólaPubQuiz strax eftir leik,“ sagði Örn Arnarson.

Jón Orri Kristjánsson ver hér skot í leik. Mynd/KFÍA, Jónas.
Jón Orri Kristjánsson ver hér skot í leik. Mynd/KFÍA, Jónas.