Katarína er með „smíðagenin“ í blóðinu

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og öllu því sem kemur að handavinnu,“ segir hin 17 ára gamla Katarína Stefánsdóttir en hún hefur svo sannarlega vakið athygli fyrir fallega hluti sem hún hefur smíðað í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Katarína er eini nemandinn í FVA sem er að læra húsgagnasmíði en þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíkt nám í skólanum. Alls eru þrjár stúlkur í tréiðnardeildinni og hafa þær ekki verið fleiri í mörg, mörg ár.

„Ég er alltaf í tímum með þeim sem eru að læra húsasmíði en grunnurinn er sá sami að mestu, Á næstu önn fer ég í önnur verkefni og þá breytast aðeins áherslurnar. Það eru tvær aðrar stelpur í húsasmíðanaminu og við erum því þrjár saman í þessu,“ segir Katarína.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hönnun

Smíðagenin eru svo sannarlega í Katarínu því afi hennar var Guðlaugur Þórðarson „Gulli frá Vegamótum.“ Þar að auki eru tveir synir Gulla og Kristínar Magnúsdóttur og náfrændur Katarínu einnig smiðir; þeir Sturla og Þórður. „Þetta er í blóðinu og kennarinn minn, Steinn Helgason (Steini Helga Dan) vann með afa mínum á sínum tíma,“ segir Katarína en hún lauk nýverið við glæsilega hillusamsetningu eins og sjá má á myndunum í greininni. Hillan er á leiðinni inn í stofu á heimili Katarínu en hún er í samningaviðræðum við foreldra sína þessa dagana.

„Ég er búinn að vinna í þessu verkefni frá því í nóvember. Ég hannaði þetta sjálf en á þessari önn höfum við fengið tækifæri til þess að hanna okkar eigið húsgagn. Sumir gerðu náttborð, bókahillur eða aðrar hillusamsetningar. Hugmyndin að þessu verkefni hefur verið lengi í kollinum á mér. Það er hægt að færa hillurnar eins og er oftast í fataskápum. Það er hægt að færa hillurnar til ef maður vill breyta til. Ég vildi líka hafa þetta þannig að það er hægt að nota körfur – eða skúffueiningar úr IKEA inn í þetta – og það smellpassar. Það þarf mikla nákvæmni í að hanna slíkan hlut og talsverðir útreikningar sem liggja á bak við þetta. Það má ekki vera hornskekkja eða eitthvað slík.“

15397608_1258667224190571_870031661_o

Ég ætla að ljúka við sveinsprófið í húsgagnasmíðinni

Eins og áður segir hefur Katarína mikinn áhuga á hönnun og hún stefnir á framhaldsnám á því sviði.

„Ég ætla að ljúka við sveinsprófið í húsgagnasmíðinni. Þegar ég valdi fagið vildi ég fá þekkingu og færni til þess að gera eitthvað sjálf. Þegar ég horfi lengra fram í tímann þá langar mig í nám sem tengist því og ég sé fyrir að verða Innanhússarkitekt. Það væri gaman að geta búið til húsgögnin sem ég tæki að mér að innrétta, og gera allt í raun og veru.“

Katarína er með fullt af góðum hugmyndum í kollinum og aðeins spurning hvaða hlutir verða að veruleika. „Kennararnir mínir eru með ákveðnar hugmyndir sem þeir leggja fyrir okkur nemendurna. Ég vinn út frá þeim hugmyndum og bæti mínum hugmyndum við,“ sagði Katarína Stefánsdóttir.

 

Ættfræðitréð:
Katarína Stefánsdóttir, er fædd 7. ágúst 1999 á Akranesi. Foreldrar hennar eru Magnea Guðlaugsdóttir og Stefán Þór Þórðarson. Katarína er elst þriggja systkina, en hún á bræðurna Oliver 14 ára og Davíð sem er 4 ára.

Á síðustu önn í FVA gerði Katarína sófaborð sem er með lausri plötu og skúffu. Platan er taflborð á annari hliðinni og er hægt að nýta borðið með mismunandi hætti eftir tilefninu. Katarína segir að taflborðið hafi tekið meiri tíma en hillusamsetningin en það tók tíma að púsla taflborðinu saman.

15409679_1258667157523911_855975483_o