„Ég ólst að mestu upp hér í búðinni. Í minningunni svaf ég mjög oft á pappakassahrúgum á leynistöðum sem eru hérna út um allt. Þetta gerði ég þegar foreldrar mínir voru á kafi í vinnu hérna í Nínu,“ segir Helga Dís Daníelsdóttir sem á Verslunina Nínu ásamt Heimi Jónassyni eiginmanni sínum.
„Þetta starf sem ég valdi mér er það skemmtilegasta sem ég geri, og í raun er þetta meira en vinna, þetta er áhugamálið og lífsstíll. Ég hugsa um hluti sem tengjast versluninni allan sólarhringinn,“ bætir Helga Dís við í samtali við skagafrettir.is
Helga Dís og Heimir störfuðu sjálf í Nínu í mörg ár áður en þau keyptu verslunina af foreldrum Helgu. Nína Áslaug Stefánsdóttir og Daníel Daníelsson opnuðu Nínu þann 20. ágúst árið 1982. Á þessum rúmlega 34 árum hefur „litla fatabúðin“ vaxið mikið og er í dag eitt helsta og elsta kennileiti Akraness þegar kemur að verslun og þjónustu.
Heimir og Helga Dís keyptu Nínu þann 1. september árið 2007 og tóku þar með við keflinu af þeim Nínu og Danna.
Helga Dís svaf á pappakössum á leynistöðum í Nínu þegar hún var barn
„Á þeim tíma var ég búinn að starfa hér í fjögur ár og Helga Dís mun lengur. Okkur langaði að gera eitthvað saman og þetta var tækifæri fyrir okkur. Við vissum alveg út á hvað þetta gekk og það var ekki mjög flókið að byrja reksturinn,“ segir Heimir en hann hefur fjölbreytta reynslu úr ýmsum störfum og má þar nefna matreiðslu og bakstur. „Ég er hálfnaður með námið í báðum þessum fögum en ég held úr þessu þá verði ekkert af því að ég klári þetta“
„Ég þekki ekkert annað en þessa verslun og það sem þarf að gera í kringum þetta. Ég hafði hug á því að læra hárgreiðslu á sínum tíma og tók þau fög sem voru í boði í FVA á þeim tíma. Það varð aldrei af því að ég færi alla leið í því námi. Það var alls ekki erfið ákvörðun fyrir okkur að kaupa Nínu – við vorum aldrei í vafa,“ segir Helga Dís
Hjónin eru samstíga í því sem gera þarf í Nínu en frídögunum hefur aðeins fjölgað hjá þeim á undanförnum árum.
„Fyrstu árin okkar þá tókum við aldrei frí. Það tók aðeins á en við höfum náð fleiri frídögum á undanförnum árum. Við gætum það ekki ef Guðný Helgadóttir mágkona mín væri ekki á vaktinni hjá okkur. Hún hefur verið hérna nánast alla tíð með smá hléum. Starfsmannaveltan hjá Nínu er nánast engin. Þeir sem byrja hérna hætta aldrei. Dóttir okkar er farin að vinna hérna með skólanum en svona þarf að gera þetta til þess að þetta gangi upp,“ segir Helga Dís en hún er byrjuð að leika golf ásamt Heimi og golfferðalög eru efst á forgangslistanum um þessar mundir.
Starfsmannaveltan hjá
Nínu er nánast engin
Vinnudagarnir í verslun er margir og langir oft á tíðum.
„Desember er skemmtilegur mánuður, þá fáum við enga frídaga en að öllu jöfnu er opið hér sex daga í viku. Við vinnum á laugardögum og það er „frí“ á sunnudögum. Þetta er hörkuvinna en ljómandi skemmtilegt, og það eru viðskiptavinirnir sem sem hvetja okkur áfram,“ segir Heimir.
Áherslurnar í Nínu hafa ekki breyst mikið frá því að Helga Dís og Heimir tóku við rekstrinum.
„Grunnurinn var til staðar og hann var góður. Það sem við höfum gert eru bara áherslubreytingar. Við tökum inn vörur oftar en áður og erum með aðeins minna magn. Það er stór hluti af okkar vinnu að skipuleggja innkaup og við höfum reynt að fara einu sinni í mánuði til okkar birgja í Evrópu til þess að skoða það sem er í boði. Mér finnst gríðarlega gaman að taka þátt í þessu ferli, að velja vörur, kaupa þær, flytja þær inn og sjá þær síðan með verðmiðann á sér í Nínu á Akranesi,“ segir Heimir en París, Manchester, London og Kaupmannahöfn eru helstu viðkomustaðir þeirra hjóna þegar þau kaupa vörur af birgjum í Evrópu.
Þegar viðtalið var tekið fóru Helga Dís og Heimir með blaðamann á ýmsa staði í verslunni þar sem vörur eru geymdar á lager – og þær vistaverur eru skemmtileg leiksvæði eins og Helga Dís rifjar upp.
Þetta húsnæði bauð upp á ævintýri út um allt
„Ég var sex ára þegar Nína var opnuð en ég horfði á það í gegnum glugga frá efri hæðinni hér hinumeginn við götuna hjá Sigrúnu og Stjána sem bjuggu þar. Ég var veik þann 20. ágúst árið 1982 og fékk ekki að vera úti. Ég var hér öllum stundum eftir skóla og fann mér eitthvað að gera. Þetta húsnæði bauð upp á ævintýri út um allt,“ segir Helga Dís.
Rýmið þar sem Nína hóf reksturinn árið 1982 er enn hluti af versluninni í dag. Nína hefur stækkað mikið frá þeim árum og í dag er heildarfermetrafjöldinn nálægt 800 m3. Það er svipað og gólflötur á handboltavelli.
„Það er búið að gera gríðarlega margt hérna og búið að breyta mörgu, brjóta niður veggi, fara inn í húsnæði við hliðina sem stendur við aðra götu svo eitthvað sé nefnt. Frá árinu 2010 hafa ekki verið stórar framkvæmdir en það er alltaf hægt að bæta og laga hlutina,“ segir Heimir.
Nína er eins og áður segir þekkt stærð á Akranesi en það kemur blaðamanni á óvart hversu margir utan Akraness leggja leið sína í bæinn til þess að heimsækja Nínu.
„Það er mikið um að fólk af Vesturlandi renni hér við hjá okkur, jafnvel á leiðinni í Reykjavík. Mörgum finnst þægilegt að fá góða þjónustu sem við teljum að við séum að veita. Og margir vilja ekki fara í lætin í Höfuðborginni,“ segir Heimir en Helga Dís vekur athygli á því að margir gerir sér ferð úr Höfuðborginni til þess að versla í Nínu.
Margir koma úr Reykjavík
til að versla í Nínu
„Já það kemur eflaust mörgum á óvart. Það kemur fólk úr Reykjavík að versla, vinkonuferðir jafnvel. Við höfum tekið eftir miklum breytingum á þessu sviði á síðustu árum. Við höfum notað Facebook til þess að auglýsa vörurnar hjá okkur og það hefur skilað sér.“
Heimir bætir við að það sé ávallt að aukast salan í gegnum fyrirspurnir í gegnum Facebook. „Við erum að selja vörur út um allt land, Egilsstaði, Húsavík, og fleiri staði. Fólk hringir bara í okkur, pantar, og við sendum það frá okkur.“
Aldurshópurinn er breiður sem leggur leið sína í Nínu og þar kemur gott úrval í skófatnaði sér vel en Heimir var í fremstu röð í sundíþróttinni á árum áður. „Keppnisskapið er enn til staðar og það brýst út í því að reyna gera vel í harðri samkeppni. Það er hægt að versla út um allt á netinu, erlendis og í Höfuðborginni. Ef við erum ekki á tánum þá endar það ekki vel.“
Að lokum voru hjónin innt eftir því var þau sæu fram á einhverjar stórtækar breytingar á næstu 10 árum. „Það er ekki hægt,“ svara þau bæði. „Það er hægt að skipuleggja eitt ár fram í tímann í mesta lagi. En ég er sannfærð um að við verðum hér enn til staðar eftir áratug,“ segir Helga Dís.
Okkur þykir vænt um að það eru góðir hlutir að gerast allt í kringum Nínu
Heimir tekur undir orð Helgu og bætir við að það séu ánægjulegir hlutir að gerast í gamla miðbænum. „Verslunin Nína hefur fest sig í sessi á þessum stað í hjarta bæjarsins. Okkur þykir vænt um að það eru góðir hlutir að gerast allt í kringum Nínu.
Nýjar verslanir á gamalgrónum slóðum, veitingahús, kaffihús, listagallerí, og margt spennandi framundan hér í miðbænum. Það eru góðir tímar framundan á þessu svæði.“