Lesbókin Café – nýtt kaffihús við Akratorg

„Lesbókin Café, verður nafnið á kaffihúsinu, og við erum að henda okkur út í djúpu laugina því við höfum aldrei gert slíkt áður,“ sögðu Christel Björg Rúdolfsdóttir Clothier og Guðleifur Rafn Einarsson sem ætla að opna nýtt kaffihús við Akratorgið þar sem Skökkin var til húsa.

„Þetta er tækifæri sem við vildum láta reyna á og spennandi tímar framundan,“ sagði Guðleifur við skagafrettir.is en hann hefur verið á sjónum í mörg ár. „Ég er hættur á sjónum og Lesbókin Café verður vinnustaðurinn. Við erum með fullt af hugmyndum sem við ætlum að framkvæma en við tökum þetta skref fyrir skref og sjáum hvernig þetta þróast.“

Við erum mjög spennt að fara í þetta og hlökkum mikið til

Christel er í fæðingarorlofi sem kennari við Grundaskóla og hún ætlar að sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér. „Við ætlum að nýta næstu daga til þess að gera ýmislegt hérna á staðnum, og gera hann að „okkar“ stað.

Ég ætla ekki að lofa því að við getum opnað fyrir jólin en það væri gaman. Markmiðið er að opna fyrir hádegi alla daga, vera með létta rétti í hádeginu, baka mikið á staðnum, og gera gott kaffi.

Við erum mjög spennt að fara í þetta og hlökkum mikið til,“ sagði Christel.

Lesbókarnafnið hefur loðað lengi við húsið sem Lesbókin Café er til staðar. Sagan er sú að húsið var reist á svipuðum tíma og höfuðstöðvar Morgunblaðsins við Aðalstræti. Lesbókin kom út í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins og var ekki margar blaðsíður og eflaust hefur einhverjum þótt það viðeigandi að kalla nýja húsið við Akratorg Lesbókina.