„Eftir jólin í fyrra ákvað ég að taka bestu ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir hin 31 árs gamla Fanney Ýr Gunnlaugsdóttir í samtali við skagafrettir.is. Fanney breytti ýmsum áherslum hjá sér í mataræðinu og hreyfingu. Hún getur varla lýst því í orðum muninum sem hún hefur fundið á vellíðan sinni eftir þessar breytingar – en 15 kg. eru fokinn út í veður og vind á tæplega ári. En hvað gerði Fanney og afhverju?
„Ég var ein þeim sem var alltaf að prófa megrunarkúra, og skyndilausnir, til þess að komast í gott form. Staðreyndin er sú að það er engin lausn, og ekki rétta leiðin að heilbrigðum og góðum lífsstíl. Ég hef lengi glímt við magakvalir vegna matar sem ég borða. Mjólk, ger og sykur voru þar helstu sökudólgarnir. Ég var oft með hausverk, fékk mígrenisköst, var þreytt og orkulaus. Slíkt ástand hefur áhrif á fjölskylduna, mér fannst það ekki réttlátt gagnvart þeim að vera ekki með orku til þess að gera ýmislegt vegna þess að mér leið ekki vel.“
Ég var ein þeim sem var alltaf að prófa megrunarkúra, og skyndilausnir
Fanney hóf að leita sér upplýsinga á internetinu og það kom henni á óvart hversu auðvelt það var og aðgengilegt að finna góðar og einfaldar upplýsingar.
„Skipulag er það fyrsta sem ég þurfti að bæta mig í hvað matinn varðar. Á hverju kvöldi skipulagði ég hvað ég ætlaði að borða, skrifaði niður matardagbók, og útbjó hvað ég ætlaði að borða. Ég stillti klukkuna til þess að minna mig á að borða, og það skiptir máli að borða reglulega. Með hverjum deginum sem leið þá komst þetta upp í vana, og tíminn styttist í undirbúninginn. Maturinn sem ég borða er fjölbreyttur og það er til alveg hellingur af hugmyndum á netinu um slíkt. Ég get ekki lýst með orðum muninum sem ég finn á mér eftir að hafa tekið þessa ákvörðun um lífstílsbreytingu. Það er hægt að skipta út svo miklu og breyta uppskriftum til hins betra,“ segir Fanney en hínu starfar sem stuðningsfulltrúi í Brekkubæjarskóla og hún elskar að vinna með krökkunum í sérdeildinni.
Ég get ekki lýst með orðum muninum sem ég finn á mér
Líkamsræktin er stór hluti af breytingunum hjá Fanney. Áður fyrr mætti hún vissulega með reglulegu millibili í rækina en hún vissi ekkert hvað hún var að gera að eigin sögn.
„Ég hékk bara í brennslutækjunum, gerði magaæfingar og fór síðan heim og borðaði eitthvað óhollt. Mér leið líka oft þannig að ég hélt að allir væru að fylgjast með mér í ræktinni – en það er ekki þannig og þegar ég áttaði mig á því breyttist mikið. Ég fékk aðstoð í gegnum fjarþjálfunina fitnestic og þar er lagt upp með fjölbreyttar æfingar og það sé gaman á æfingum. Ég fer 5-6 sinnum í viku í líkamsrækt og er alltaf spennt að mæta – og hreyfingin er eitt af uppáhaldsáhugamálunum mínum í dag,“ segir Fanney en hún finnur mikinn mun á sér efir að hafa byrjað að hreyfa sig reglulega.
Ég fer 5-6 sinnum í viku í líkamsrækt og er alltaf spennt að mæta
„Það hefur verið mesta hvatningin að börnin mín tóku eftir að mamma þeirra var orkumeiri og hressari. Ég var ekki lengur þreytt, orkulaus eða með magaverki. Vissulega koma tímar þar sem ég fer aðeins af leið í matnum. Þá er ég fljót að rifja það upp með mér afhverju ég er að gera þetta. Hugarfarið skiptir mestu máli, ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig, ekki aðra. Með tímanum hefur löngunin í gos, kex og kökur minnkað gríðarlega, ég veit að mér líður illa ef ég borða slíkt og mér finnst það ekki þessu virði.
Ættfræðitréð:
Fanney Ýr Gunnlaugsdóttir, 31 árs, frá Akranesi. Foreldrar hennar eru Elísabet Jóhannesdóttir og Gunnlaugur Haraldsson. Bróðir Fanneyjar er Heimir Fannar Gunnlaugsson. Kærasti Fanneyjar er Guðmundur Þór Pálsson, og dætur þeirra eru Ísabella Ýr 9 ára og Camilla Ýr 4 ára. Fanney á einnig tvö stjúpbörn, Andra Má 15 ára og Emblu Sól 12 ára.
Að endingu er hér ein lauflétt uppskrift frá Fanneyju sem ætti að gleðja marga.
Það er algegnt að það séu pizzukvöld á mörgum heimilum á föstudagskvöldum og gerum við alltaf þessa uppskrift sem vekur mikla lukku hjá fjölskyldufólkinu á mínu heimili
Glúteinlaus pizza (2 botnar)
¾ bollar chia fræ
2 ¼ bolli vatn
9 msk bókhveiti ( glúteinlaust)
3 msk basjúhnetur (ég nota saxaðar möndlur)
6 msk braskersfræ
3 tsk oreganeo
3 tsk salt
Aðferð
Byrja að setja chia og vatn saman í skál, hræra smá.
Á meðan þetta verður að geli skal saxa hnetururnar/möndlurnar og fræin.
Þegar Chia blandan er orðin gelkennd skal blanda restinni af innihaldsefnunum út í og hræra vel.
Leyfa blöndunni að standa aðeins.
Setja bökunarpappír á tvær plötur og skipta deiginu í tvennt. Makið deiginu á plötuna með sleif og hafið það í þeirri þykkt sem þið kjósið. Botnin lyftir sér ekki.
Setjið botnana í ofninn í 30 – 40 mín á 175 C
Taka botnana út og setjið það álegg sem þið kjósið. Setjið aftur inn í ofn í ca 10 mín og hafið hitann við 210 C.