Nýr markmaður á Skagann – Ingvar Kale vill sanna sig á ný

Eins og fram hefur komið hér á skagafrettir.is meiddist aðalmarkmaður karlaliðs ÍA í knattspyrnu, Árni Snær Ólafsson, illa á hné nýverið. Árni fór í aðgerð þar sem hann fékk nýtt krossband og verður hann frá keppni í marga mánuði. Forsvarsmenn ÍA hafa því samið við hinn reynslumikla markvörð Ingvar Þór Kale og gildir samningurinn út tímabilið. Ingvar Þór hefur leikið yfir 140 leik í Pepsideildinni en hann hefur m.a. leikið með Víkingum, Breiðabliki og Val. Hann varð Íslands og bikarmeistari með Breiðablik og bikarmeistari með Val.

Í fréttatilkynningu frá ÍA kemur fram að mikil ánægja sé  hjá félaginu að ná samningum við hinn reynda Ingvar Þór og mun hann berjast um stöðuna við Pál Gísla Jónsson.

Ingvar Þór er gríðarlega ánægður með að vera kominn uppá Skaga.

„ÍA er frábær klúbbur með mikla hefð og merka sögu. Ég hafði mikinn áhuga um leið og það var haft samband við mig og ég tel mig hafa mikið fram að færa til að hjálpa liðinu í baráttunni næsta sumar. Síðasta sumar gekk ekki jafnvel hjá mér eins og árin þar á undan og ég er orðinn hungraður í árangur aftur.”