Gámurinn með nýju stólunum og borðunum fyrir Þorrablót Skagamanna skilaði sér á réttum tíma.
Fleiri miðar gætu bæst í söluna í kvöld.
„Það er búið að vera frekar mikið að gera hjá okkur að undanförnu -eiginlega alveg „kreisí“ mikið en þetta er allt að smella saman. Nýju borðin og stólarnir eru komnir inn í íþróttahúsið í Vesturgötu og vonandi getum við bætt einhverjum miðum við í söluna hjá okkur. Það kemur í ljós í kvöld þegar við sjáum hvernig þessi nýju borð og stólar raðast upp í salinn hjá okkur,“ segir Hannes Viktor Birgisson sem er einn af fjölmörgum úr Club 71 hópnum sem stendur í ströngu við undirbúning á Þorrablóti Skagamanna sem fram fer laugardaginn 21. janúar.
Mikil spenna var í hópnum segir Hannes vegna þess að gámurinn með stólunum og borðunum kom ekki til landsins fyrr en á miðvikudaginn. „Það voru nokkrir í hópnum og þá sérstaklega konurnar sem voru alveg að fara á límingunum yfir þessu. Það voru nokkrir að setja upp plan B ef þetta klikkaði. Gámurinn skilaði sér og hann kom með ÞÞÞ í gær upp á Skaga og það er búið að koma þessu öllu á sinn stað. Núna er lokaundirbúningurinn hafinn þetta verður geggjað Þorrablót – það er alveg ljóst,“ sagði Hannes við skagafrettir.is í morgun.