Arnór fer með Norrköping í æfingaferð til Portúgals

Arnór Sigurðsson, ungur knattspyrnumaður úr ÍA, mun á næstu dögum fara í æfingaferð með sænska úrvalsdeildarliðinu Norrköping. Arnór er fæddur árið 1999 og er því á 18. ári en hann leikur sem miðjumaður. Arnór hefur leikið 15 leiki með U17 ára landsliði Íslands og í fyrra var hann skráður með 14 leiki með ÍA í Pepsideildinni.

Arnór var á dögunum að leika sér í körfubolta  með félögum sínum úr ÍA í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum og þar sagði hann við skagafréttir að ákvörðun um framhaldið yrði tekin eftir æfingaferðina í Portúgal. Arnór og Stefán Teitur Þórðarson fóru fyrr í vetur til æfinga hja Norrköping og var Arnóri boðið í æfingaferðina með liðinu í kjölfarið.

IFK Norrköping er eitt af sögufrægustu félögum Svíþjóðar. Félagið vann sinn 13. meistaratitil árið 2015 eftir 26 ára bið. Liðið varð sænskur meistari ellefu sinnum á 20 ára tímabili.

Jón Guðni Fjóluson frá Íslandi leikur með Norrköping. Margir íslenskir leikmenn hafa verið í herbúðum liðsins og þar ber fyrst að nefna Skagamanninn Stefán Þórðarson. Hann er hetja hjá stuðningsmönnum liðsins og númerið 18 sem hann var ávallt með á bakinu á keppnistreyjunni verður ekki notað aftur af leikmanni Norrköping. Keppnistreyja Norrköping nr. 18 hefur verið hengd upp í rjáfur á heimavelli félagsins Stefáni til heiðurs.