Í dag opnaði ný og endurgerð verslun á Akranesi. Verslunin er staðsett við Garðagrund 1 og er nafnið á henni Krambúðin. Samkaup Strax var áður í þessu húsnæði sem Skagamenn þekkja vel eftir áralangan rekstur á þeirri verslun.
Þetta er fjórða verslunin sem Samkaup opnar undir þessu nafni. Hinar eru við Skólavörðustíg í Reykjavík, á Húsavík og í Reykjanesbæ.
Gísli Gíslason markaðsstjóri Samkaupa segir að mikil ánægja hafi verið með þessa nýju búðategund, bæði meðal íbúa í nærsamfélaginu sem og annarra.
„Hönnun Krambúðarinnar miðast af því að vísa til íslenskrar náttúru þar sem birki, grjót, hraun og sina ræður ríkjum. Andrúmsloftið á að vera létt með einföldu og stílhreinu litavali og á upplifunin að taka mið af því,“ segir Gísli og bætir við.
Opnunartími Krambúðarinnar
08.00 – 23.30 virka daga
09.00 – 23.30 um helgar
„Í Krambúðinni er lagt upp með að viðskiptavinir geti orðið sér út um þær vörur sem þarf til heimilisins hverju sinni á hagstæðu verði.
Fyrir fólk sem er á ferðinni eða þá sem vantar skyndilausnir verður boðið upp á bakað á staðnum, tilbúna rétti, samlokur, tilbúin salöt, og kaffi,“ sagði Gísli Gíslason við skagafrettir.is