„Yfirlýst markmið okkar að vera skemmtilegt félag“

Körfuknattleiksfélag Akraness stendur á nokkrum tímamótum um þessar stundir. Meistaraflokkur félagsins leikur í næst efstu deild í karlaflokki og er ákveðið uppbyggingar – og endurnýjarferli farið í gang hjá félaginu. Næsti leikur hjá ÍA fer fram í kvöld, fimmtudag, á Selfossi þar sem ÍA mætir liði FSu í sannkölluðum fjögurra stiga leik.

Hannibal Hauksson stjórnarmaður félagsins segir að margir efnilegir leikmenn eru í yngri flokkum félagsins og það séu spennandi tímar framundan.

Eitt af helstu markmiðum okkar í stjórninni var að ná inn fleiri sterkum styrktaraðilum til liðs við okkur. Peningar eru mikilvægir í starfi svona félags. Það er fastur kostnaður sem fylgir því að vera með lið í keppni í Íslandsmóti – og við erum alltaf að reyna gera betur á því sviði.

Við viljum líka gott af okkur leiða. Höfum leikið með bleiku slaufuna í mótum yngri flokka, selt slíkar slaufur, tekið þátt í Mottumars þar sem mfl. gefur eitthvað af sér. Við höfum líka verið með frítt inn á nokkra leiki til þess að gefa eitthvað af okkur. Það er samfélagsleg skilda okkar að gefa eitthvað til baka í samfélagið.

Að fara á körfuboltaleik er eitthvað sem Hannibal mælir með að Skagamenn geri. „

Ef fólk hefur gaman af íþróttum, spennu, þokka, átökum, hitta aðra o.s.frv. þá getur körfuboltaleikur uppfyllt þetta allt.  Þannig að við hvetjum alla til að koma á leikina hjá ÍA og athuga hvort körfuboltaleikur sé ekki eitthvað sem fólk getur vanið sig á að mæta á.

Róbert Gunnarsson stjórnarmaður og Hannibal fylgjast með gangi mála í leik hjá ÍA.
Róbert Gunnarsson stjórnarmaður og Hannibal fylgjast með gangi mála í leik hjá ÍA.

Einnig er það yfirlýst markmið okkar að vera skemmtilegt félag þar sem öllum á að líða vel.  Við erum aðeins undirmannaðir eins og er þannig að við höfum ekki náð að koma öllum skemmtilegu hugmyndum okkar í verk en molar eru líka brauð.  En við vitum ekki betur en að öllum líði vel innan félagsins þannig að við erum að ná því. Það eru engin takmörk fyrir því hversu vel manni getur liðið þannig að við erum ekkert hættir þar heldur reynum við að bæta í á hverju nýju keppnisári.  Þetta er langhlaut og við erum í hlaupaskónum allt árið.

Við viljum ekki bara framleiða afreksfólk í körfubolta heldur fyrst og fremst góða einstaklinga út í lífið.  Á bakið góða íþróttamenn þurfa að vera góðir félagsmenn, ekkert félag getur rekið sig sjálft.  Sjálfboðavinnan á undir högg að sækja og því er gríðarlega mikilvægt að hafa gott fólk innan sem utan vallar þannig að félagið geti gengið sem best,“ sagði Hannibal við skagafrettir.is