Slysavarnardeildin Líf með höfðinglegar gjafir til góðra verka

Slysavarnardeildin Líf á Akranesi kom svo sannarlega færandi hendi nýverið þegar deildin afhenti Akraneskaupstað fjórar milljónir kr. Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs tók á móti gjöfinni fyrir hönd Akraneskaupstaðar og þakkaði hann kærlega fyrir glæsilegt framlagt.

Peningarnir verða notaðir í að kaupa og setja upp hraðavaraskilti sem sett verða upp á sex stöðum í bænum. Tvö þeirra verða við bæjarmörk Akraness, við Innesveg og Akranesveg nálægt tjaldsvæðinu. Fjögur hraðavaraskilti verða sett upp við grunnskólana á Akranesi, tvö þeirra verða við Grundaskóla og tvö við Brekkubæjarskóla.

Akraneskaupstaður mun útfæra hugmyndina nánar í samráði við forsvarsmenn Slysavarnardeildarinnar, skipulags- og umhverfissvið og skólastjóra grunnskólanna á Akranesi.

Slysavarnardeildin Líf lét ekki staðar numið með þessum fjórum milljónum kr.  Safnaðarheimilið Vinaminni fékk afhent hjartastuðtæki að gjöf og öðru slíku tæki verður komið fyrir í húsnæði slysavarnardeildarinnar Líf í Jónsbúð. Þar að auki fékk Björgunarfélag Akraness hálfa milljón kr. í styrk vegna kaupa á nýju björgunarskipi félagsins.