Síbería er tilvísun í tengsl Stranda og Skagans

Listakonan og Skagamaðurinn Elsa María tengir Strandirnar og Skagann  í gegnum listaverkið Síberíu sem er við Akranesvitann:

Listin hefur verið viðloðandi hjá mér frá blautu bransbeini. Mamma er menntuð í keramikhönnun, hún hefur alltaf verið að teikna og mála. Ég hef eflaust smitast af henni og ég get líka þakkað Grundaskóla fyrir öfluga kennslu í listgreinum. Ég kaus alltaf að fara í listræna verkefnavinnu þegar það var í boði – og í skólanum var mikil hvatning að vera skapandi og frjó í hugsun í öllum námsgreinum,“ segir hinn 23 ára gamla Elsa María Guðlaugs Drífudóttir við skagafrettir.is.

Elsa María á heiðurinn að glæsilegu listaverki, Síberíu, sem nýverið var sett upp við Akranesvitann á Breiðinni. Elsa María er fædd á Akranesi árið 1994 og hún var nemandi í Grundaskóla og fór síðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

„Eftir stúdentsprófið af málabraut fór í nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Þar lauk ég eins árs sjónlistarnámi en árið 2014 fór í Listaháskólann og þar mun ég útskrifast í vor með BA gráðu í myndlist.

„Ég hef alltaf verið að teikna og mála. Í FVA tók ég þátt í því sem listaklúbburinn var með í gangi, kaffihúsakvöld og ég tók tvívegis þátt í sýningum hjá Hvíta Húsinu á Vökudögum. Á þeim tíma var ég staðráðinn í því að læra teiknimyndagerð. Ég æfði mig mikið í persónusköpun og teikningu. Ég skrifaði einnig smásögur með vinum mínum Heimi Sveinssyni og Knúti H. Ólafssyni. Það var hugsað sem æfing fyrir teiknimyndagerðina,“ segir Elsa María sem er svo sannarlega með listina í æðum sínum. Elsa María er vel menntuð í þverflautuleik. „Ég var í tónlistarnámi frá sjö ára aldrei og ég hætti því fyrir tveimur árum. Ég fékk mjög góða menntun þar og ég er enn að njóta afrakstursins úr því námi. Kennararnir mínir og samnemendur voru brunnur innblásturs. Tónlistin er enn mikilvægur liður af mínu sálar- og listalífi, þótt ég sé ekki beint að stunda tónlist núna í dag.“

Elsa María Guðlaugs Drífurdóttir. Mynd/Ágústa Gunnarsdóttir.
Elsa María Guðlaugs Drífurdóttir. Mynd/Ágústa Gunnarsdóttir.

Ég hef alltaf verið að teikna og mála. Kennararnir mínir og samnemendur voru brunnur innblásturs

Elsa María er að ljúka við krefjandi og lærdómsríkt myndlistarnám frá Listaháskólanum í vor. Hún er ánægð með námið og þeim tækifærum sem hún hefur fengið.

„Ég hef fengið að kynnast listasenunni og í náminu hef ég fengið tækifæri til þess að gera hluti sem ég hefði aldrei annars fengið að gera. Í LHÍ eru kennarnir ferskir enda eru þeir starfandi í sínu fagi samhliða kennslunni. Þetta fyrirkomulag hefur orðið til þess að maður fær nána kynningu á innviðum listasamfélagsins og þeim hlutverkum sem myndlistamenn þjóna utan veggja skólans. Í náminu hef ég orðið mun samfélagslega meðvitaðari og hef mikið verið að íhuga að hverju ég vil stuðla með því sem ég skapa.
Eftir útskrift stefni ég á að koma mér í starfsnám einhvers staðar í Evrópu þar sem ég get fengið að upplifa hvernig það er að vera virkur liður í listaheiminum. Það er sérstaklega mikilvægt að öðlast reynslu utan Íslands. Samfélagið hérna er svo lítið að það er nauðsynlegt fyrir þá sem starfa í skapandi greinum að leita út til þess að sækja sér innblástur og þekkingu. Hvað tekur við eftir það er svo önnur saga. Ég mun fara í framhaldsnám, en hvar eða í hverju er ekki ákveðið. Ég ætla aðeins að leyfa mér að njóta vafans,“ segir Elsa María en hún rekur hér á eftir söguna á bak við verkið Síberíu.

Síbería við Akranesvitann / Mynd Hilmar Sigvaldason
Síbería við Akranesvitann / Mynd Hilmar Sigvaldason

Verkið Síbería var upphaflega gert fyrir samsýningu í Akranesvita sem bar heitið „Viltu vita?“.

Ég var stödd norður í Árneshreppi þaðan sem ég á ættir að rekja. Ég var að ræða sýninguna við foreldrana og fékk þessa hugmynd og fékk pabba með mér í lið. Föðurfjölskyldan á bæ þarna fyrir norðan. Þar eyðum við löngum stundum og þar rekur á land viðnum sem er nýttur í verkið. Ég og pabbi eyddum einhverjum dögum saman þar sem ég lýsti fyrir honum hvað það var ég vildi gera og hann hjálpaði mér að láta það gerast. Formið og titillinn vísar til ferðalags og uppruna efniviðarins. Það er talið að bróðurpartur rekaviðar á Íslandi komi frá Síberíu. Eins er þetta lífrænt form sem er hægt að finna á mörgum stöðum í náttúrunni og gefur verkinu sterkari tengingu við umhverfið og náttúruna. Þessi verknaður, að flytja verkið síðan frá Ströndum og á Akranes og koma því þar fyrir, er svo auðvitað tilvísun í tengsl Stranda og Skagans, en töluverður fjöldi íbúa Akraness á ættir sínar að rekja norður á Strandir.“

Síberíuverkið verður staðsett á Breiðinni næstu árin.

„Það eru töluverðar framkvæmdir í vændum á Breið og því verður það líklega fært til á betri stað þegar þær eiga sér stað. En hugmyndin er sú að það verði staðsett varanlega á Breið. Ég er mjög ánægð með það og vona auðvitað að það gangi eftir,“ sagði Elsa María að lokum við skagafrettir.is.

 

 

Ættartréð:

Elsa María er eins og áður segir fædd árið 1994. Foreldrar hennar eru Guðlaugur Maríasson og Drífa Gústafsdóttir. Elsa María er næst elst en hún fjögur systkini.

Þau eru í aldursröð: Guðmundur Freyr, Arnaldur Ægir, Eiður Andri og Eydís Glóð.