Hljómsveitin Vök með „stórt“ Skagahjarta

Hljómsveitin Vök hefur vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum – eða allt frá árinu 2013 þegar Vök sigraði í Músíktilraunum. Margrét Rán Magnúsardóttir og Ólafur Alexander Ólafsson eru í Vök og þau eiga bæði ættir að rekja á Akranes.

Nýverið skrifaði Vök undir samning við alþjóðlega útgáfufyrirtækið Nettwerk Music Group og segir Margrét Rán við skagafrettir.is að samningurinn gefi hljómsveitinni tækifæri til þess að dreifa tónlistinni, stækka hlustendahópinn, tengslanetið og auðveldi þeim að starfa sem hljómsveit.

Nýverið skrifaði Vök undir samning við alþjóðlega útgáfufyrirtækið Nettwerk Music Group

Tónlistin sem Vök semur er raftónlist og árið 2013 fór allt af stað.

„Hljómsveitin varð til þar sem ég og Andri Már höfðum verið að leika okkur að búa til raftónlist. Við skráðum okkur í Músíktilraunir en áttum varla til mörg lög á þeim tíma. Við sigruðum í keppninni mjög óvænt og Vök vatt upp á sig í kjölfarið,“ segir Margrét Rán en hún er fædd árið 1992 á Akranesi og ólst upp á Akranesi.

Aðspurð segir Margrét að meðlimir Vakar hafi ávallt verið að spila á hljóðfæri án þess að því fylgdi nokkur alvara fyrstu árin.

„Við vorum í raun bara að leika okkur með hljóðfærin þar til að Vök var stofnuð. Við höfum öll ótrúlega mikinn áhuga á tónlist og að fá að spila tónleika hérlendis og erlendis eru algjör forréttindi. Það er erfitt að fara að hætta því þegar maður er byrjaður á því.“

Í fyrra fór Vök í stóra tónleikaferð um Evrópu og segir Margrét Rán að það hafi verið mikið ævintýri.

„Við fórum í okkar fyrsta „headline tour“ í fyrra sem var í heilan mánuð, það var ótrúlegt ævintýri. Við vorum í rútu og keyrðu milli landa í Evrópu. Stundum spiluðum við allt að 5 tónleika í hverju landi,“ segir Margrét Rán en Vök er að ljúka við fyrstu breiðskífu sveitarinnar á næstu mánuðum. „Loksins er þetta að klárast. Við munum fylgja þessari breiðskífu eftir með tónleikaferðalagi um Evrópu sem mun standa yfir í nokkrar vikur.“

Hljómsveitin Vök fagnar nýja samningum. Mynd/Vök
Hljómsveitin Vök fagnar nýja samningum. Mynd/Vök

Við fórum í okkar fyrsta „headline tour“ í fyrra sem var í heilan mánuð, það var ótrúlegt ævintýri

Eins og áður segir eiga Margrét Rán og Ólafur Alexander ættir að rekja til Akraness. Bæði eiga þau frábærar minningar frá Akranesi.

„Ég var mikið á Akranesi sem barn enda er 90% fjölskyldu beggja foreldra minna búsett á Akranesi. Fæ alltaf smá svona „nostalgíutilfinningu“ þegar ég tek rúnt um bæinn í dag – þó það sé ekki mjög oft,“ segir Óli og Margrét tekur undir orð hans.

„Ég tengi Akranes við frábærar æskuminningar. Það var æðislegt að fá að alast þar upp þó ég hafi nú ekki verið alla mína æsku þar en maður fékk algjört frelsi sem barn að leika sér útum allan bæ,“ segir Margrét Rán.

Ættartréð:
Margrét Rán: Foreldrar hennar eru Jóna Guðrún Guðmundsdóttir og Magnús Valþórsson. Jóna Guðrún er fædd á Akranesi og er dóttir þeirra Guðmundar Hannessonar vélstjóra og Margrétar Gunnarsdóttur.
Ólafur Alexander: Foreldrar hans eru Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður og Stella María Arinbjargardóttir, sem eru bæði frá Akranesi.

Hljómsveitin Vök er þannig skipuð:
Margrét Rán – Singer / guitar / keyboard
Andri Már – Saxophone / Apc
Ólafur Alexander – Guitar / Bass
Einar Stef – Drums