Ævintýri framundan: Auður og Júlíus fara til Afríku í sjálfboðastarf

„Við erum að fara til Suður-Afríku og munum dvelja rétt fyrir utan Höfðaborg (Cape Town). Við verðum þarna í tvær vikur í sjálfboðastarfi hjá samtökunum Norður-Suður. Þar fáum við innsýn í skólastarf, barnaheimili og súpueldhús sem fæðir 300 börn á mánuði,“ segir Skagakonan Auður Líndal en hún fer með 15 ára syni sínum í ævintýraferð á framandi slóðir.

Júlíus Emil Baldursson og Auður, sem rekur Garðakaffi á Safnasvæðinu, vita svo sannarlega ekk á hverju þau eiga von á í Höfðaborg.

„Við búum okkur undir allt, við fáum alltaf góða reynslu og veganesti í lífið, og án efa stóran skammt af menningarsjokki. Við höfum í raun ekki getað undirbúið okkur sérstaklega fyrir þetta verkefni. Aðalvinnan hefur falist í pappírsvinnu þar sem ég er að ferðast með barn undir 18 ára aldri. Það þurfti nokkra stimpla á pappíra til að fá það í gegn,“ segir Auður við skagafrettir.is

Við búum okkur undir allt, við fáum alltaf góða reynslu og veganesti í lífið

Júlíus Emil er í 9. bekk í Grundaskóla og hefur hann ásamt móður sinni farið í sprautur vegna lifrabólgu A og B, taugaveiki.

„Júlíus var búinn að fá þessar helstu sprautur sem til þarf en ég þurfti að láta skerpa aðeins á þessu hjá mér.“

16998662_10154634333329702_2014320549802301988_n

Ferðalagið til Suður-Afríku tekur sinn tíma og vonast Auður að Júlíus hagi sér almennilega.

„Við fljúgum til London 2. mars og eigum kvöldflug til Höfðaborgar frá Gatwick. Flugið tekur um 12 tíma og ég vona bara að sonurinn verði stilltur í þessu ferðalagi. Ég á margar kostulegar sögur af honum á ferðalögum frá því hann var yngri. Ég er silkislök að eðlisfari og læt því aðra um að stressa sig á hlutunum.“

Ég á margar kostulegar sögur af honum á ferðalögum frá því hann var yngri

Auður segir að lokum að hún og Júlíus renni nokkuð blint í sjóinn með þetta ferðalag.

„Ég hef ekki „Guðmund“ um hvað við fáum út úr þessu. Við fáum vonandi nýja sýn á lífið og þetta styrkir okkur mæðgin á svo marga vegu. Ég hlakka allavega til að fara í þetta verkefni með 15 ára „tappa“ sem er á skemmtilegum aldri þar sem „unglingaveikin“ er í botni,“ sagði Auður Líndal.