Ármann Smári leggur skóna á hilluna

Fyrirliði karlaliðs ÍA í Pepsi-deildinn hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Ármann Smári Björnsson hefur tekið þessa ákvörðun en hann sleit hásin undir lok keppnistímabilsins í fyrra. Ármann Smári er 36 ára gamall en gekk til liðs við ÍA árið 2012 eftir að hafa verið í mörg ár erlendis sem atvinnumaður.

Ármann varð m.a. norskur meistari með Brann í Noregi en hann lék þar um langt skeið og einnig á Englandi. Hann lék  alls 6 A-landsleik en á fjölda leikja með U21 árs liðinu og U19 ára.

Frá árinu 2014 hefur Ármann verið fyrirliði ÍA og hann lék alls 169 leiki og skoraði alls 11 mörk.

„Það hefur verið frábært að spila fyrir ÍA. Það er eiginlega ótrúlegt og erfitt að lýsa því. Þetta er stórt félag og bærinn snýst allur um þetta. Það eru allir með.“ segir Ármann Smári um ferilinn hjá ÍA.

Í tilkynningu frá Knattspyrnufélagi Akraness segir eftirfarandi:

Ármann Smári hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Skagamanna undanfarin ár og því er mikill missir af honum á vellinum. Sem dæmi má nefna að hann var valinn leikmaður árs­ins 2016 hjá Morg­un­blaðinu í Pepsi-deild karla í knatt­spyrnu en einnig var hann valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum liðsins eftir síðustu leiktíð.
Knattspyrnufélag ÍA þakkar Ármanni fyrir ómetanlegt framlag á spennandi tímum hjá félaginu og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.