„Við erum hér þrír útskriftarnemar í Kaupmannahöfn sem ætlum að fara til Kiberia í Kenýa í Afríku. Þar er markmiðið að tengja skóla og heilsugæslustöðvar við internetið. Og auka þar með möguleika fólks að fá atvinnu,“ segir Skagamaðurinn Hjalti Heiðar Jónsson við skagafrettir.is.
Verkefnið í Kenýa hjá Hjalta er hluti af lokaverkefni hópsins við Copenhagen School of Design and Technology í Danmörku.
„Fyrsta skrefið er að fara með internetbúnað (routera) og setja upp á svæðinu. Til þess að koma þessu í verk höfum við sett af stað hópfjáröflun þar sem að einstaklingar og fyrirtæki geta lagt okkur lið,“ segir Hjalti.
Nánar má lesa um fjáröflunina með því að smella hér:
„Þetta er skemmtilegt verkefni og vonandi sjá einhverjir sér fært um að styðja við bakið á okkur í þessu,“ segir Hjalti en hann er fæddur í Gautaborg í Svíþjóð 23. mars árið 1987.
Foreldrar hans eru Skagamennirnir Jón Allansson og Heiðrún Janusardóttir.
„Ég bjó í Svíþjóð til fimm ára aldurs á meðan foreldrar mínir voru að ljúka námi. Þaðan fórum við Hafnarfjarðar en árið 1996 fluttumst við á Skagann þegar pabbi tók við Byggðasafninu á Görðum,“ segir Hjalti en hann stundaði nám við Brekkubæjarskóla en flutti til Kaupmannahafnar í byrjun ársins 2009. „Ég bý með kærustunni minni Miu Linneu Jørgensen í Köben og við eigum 7 mánaða gamla dóttur, Björk Linneu Hjaltadóttur,“ segir Hjalti en hann leggur áherslu á að hann sé glerharður Skagamaður þrátt fyrir að hafa búið jafnlengi erlendis og heimafyrir.