Frábær árangur hjá ÍA á Íslandsmótinu í sundi

Sundfólkið úr ÍA sem tók þátt í Íslandsmótinu í 50 metra laug um liðna helgi átti frábæra helgi. Skagamenn lönduðu alls fimm verðlaunum á þessu Íslandsmóti, með eitt gull, þrenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Árangur ÍA var sá besti í mörg ár á þessu móti, en keppendur frá ÍA komust 16 sinnum í úrslitasund en þau komust 9 sinnum í úrslitasund í fyrra.

Alls kepptu átta keppendur fyrir ÍA og bættu þeir sig í 32 sundum.

Ágúst Júlíusson landaði Íslandsmeistaratitli í 100 metra flugsundi. Ágúst synti á 55,96 sek og bætti fimm ára gamalt Akranesmet sitt frá árinu 2012.

 

Ágúst fékk silfurverðlaun í 50 metra flugsundi á nýju Akranesmeti. Hann synti á 24,94 sek. og var aðeins 0,11 sek. á eftir sigurvegaranum.

Sævar Berg Sigurðsson fékk tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Hann bætti árangur sinn í 100 metra bringusundi um tæplega tvær sekúndur og var 0,3 sekúndum frá gullverðlaunum. Sævar synti á 1:08,08 mín. Í 50 metra bringusundi bætti Sævar sig um 0,8 sek og kom í mark á tímanum 31,25 sek. Hann var 0,09 sek. frá efsta sætinu og er bætingin hjá Sævari athyglisverð þar sem um stutta vegalengd er að ræða. Sævar fékk bronsverðlaun í 200 metra bringusundi.

Sævar Berg og Ágúst.

Sævar Berg Sigurðsson og Ágúst Júlíusson unnu til fimm verðlauna samtals fyrir ÍA.

Sett voru tvö Akranesmet í boðsundi, blönduðum sveitum:

4x 50m fjórsund en þá sveit skipuðu þau Una Lára Lárusdóttir, Sævar Berg Sigurðsson, Ágúst Júlíusson og Brynhildur Traustason. Þau syntu á tímanum 1.58.75 sem er 2.4 sek. bæting síðan 2015.

4x50m skriðsund þar sem þau Brynhildur Traustadóttir, Ágúst Júlíusson, Ásgerður Jing Laufeyjardóttir og Sævar Berg Sigurðsson syntu á tímanum 1.48.21 og bættu tímann síðan 2015 um 1.7 sek.

Hér má sjá árangur sundfólksins úr ÍA.
1. sæti Ágúst Júlíusson 100 flugsund
2. sæti Ágúst Júlíusson 50 flugsund
2. sæti Sævar Berg Sigurðsson 50 bringusund
2. sæti Sævar Berg Sigurðsson 100 bringusund
3. sæti Sævar Berg Sigurðsson 50 bringusund
4. sæti Brynhildur Traustadóttir 200 skriðsund
5. sæti Brynhildur Traustadóttir 100 skriðsund
6. sæti Brynhildur Traustadóttir 50 flugsund
6. sæti Brynhildur Traustadóttir 100 flugsund
6. sæti Una Lára Lárusdóttir 50 skriðsund
6. sæti Erlend Magnússon 50 baksund
7. sæti Erlend Magnússon 100 baksund
7. sæti Brynhildur Traustadóttir 400 skriðsund
7. sæti Ásgerður Jing Laufeyjardóttir 100 skriðsund
8. sæti Ásgerður Jing Laufeyjardóttir 200 bringusund
8. sæti Una Lára Lárusdóttir 200 baksund