Aníta Sól á leiðinni í sólina í Alabama á háskólastyrk

Elísa Svala Elvarsdóttir skrifar:

Það er greinilegt að ungt íþróttafólk frá Akranesi vekur athygli á erlendri grund. Aníta Sól Ágústsdóttir, knattspyrnukona úr ÍA, er ein af þeim. Aníta Sól er á leiðinni til Bandaríkjanna í haust þar sem hún mun leika með háskólaliðinu South Alabama samhliða háskólanámi. Skagafréttir ræddu nýverið við Anítu þar sem hún fór í gegnum það helsta sem þarf að gera til þess að komast á háskólastyrk í Bandaríkjunum.

Hvernig kom það til að þú samdir við bandarískan háskóla?

„Ég hef alltaf látið mig dreyma um að fara til Bandaríkjanna í háskóla. Eftir að ég sá að Jóna og Brynjar byrjuðu með Soccer and Education og að margir krakkar væru að fara út var ég alveg staðráðin í að fara,“ segir Aníta Sól Ágústsdóttir sem nýverið samdi við bandaríska háskólann South Alabama og mun hún leika með knattspyrnuliði skólans samhliða háskólanáminu.

„Um leið og ég hafði samband við þau Jónu og Brynjar og þá byrjaði ferlið. Ég bjó til myndband úr leikjum hjá mér og bjó til fótbolta ferilskrá. Jóna sendi síðan upplýsingar af mér til háskólaþjálfara. Þeir höfðu síðan samband við mig og vildu fá að heyra í mér og útskýra liðið og fótboltann. Ég spjallaði við marga þjálfara allstaðar frá í Bandaríkjunum sem höfðu áhuga á mér.

Í byrjun febrúar sendi þjálfarinn frá South Alabama á mig og sagðist hafa áhuga. Ég spjallaði fljótlega við hann á skype og þá sagði hann mér að hann væri að koma til Íslands í mars. Ég varð mjög spennt að heyra það og beið spennt eftir að hitta hann því mér leist mjög vel á skólann strax í byrjun. Þann 17. mars kom þjálfarinn og horfði á mig á æfingu. Honum leist vel á mig og mér sömuleiðis á það sem hann hafði að bjóða. Aðeins þremur dögum seinna sendi hann mér tilboð. Mér fannst ég ekki geta neitað þessu boði, flott staðsetning og góður skóli, bæði hvað fótboltann varðar og námið,“ segir Aníta en hún hefur verið að vinna í því að komast út frá árinu 2016.

„Ferlið tók frekar langan tíma enda stór ákvörðun að taka. Eftir sumarið 2016 byrjaði ég í raun á fullu í þessu. Það höfðu nokkrir þjálfarar samband við mig og ég spjallaði við flesta þeirra. Að lokum voru í raun tveir skólar sem mér leist vel á. Ég valdi South Alabama vegna þess að hann heillaði mikið og mér leist vel á staðsetningu skólans og þjálfarana og prógrammið í heild.“

Hvað felst í því í því að fá háskólastyrk?

„Það getur verið mismunandi eftir því hvernig styrk þú færð. En venjulega í 100% skólastyrk eru skólagjöldin, húsnæði, bækur og maturinn innifalið. Reyndar er flug til og frá Bandaríkjunum ekki í styrknum þar sem reglur NCAA banna það.“

Aníta Sól Ágústsdóttir.
Aníta Sól Ágústsdóttir.

Skólinn og svæðið sem þú ferð til, hvað veistu um þessa hluti?
„Ég er að fara í University of South Alabama. Hann er staðsettur í Mobile Alabama. Í skólanum eru í kringum 16.000 manns en færri eru á campus/háskólagörðunum. Í Mobile búa um 200.000 manns og það er í raun alltaf gott veður þarna, tilvalið að kíkja þangað í gott frí.“

Hver er ástæðan fyrir því að þú æfir fótbolta?
„Félagsskapurinn er stór partur af því en það er líka svo gaman að spila þessa íþrótt.“

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
„Ég vakna í kringum 6:30 fæ mér þá að borða og fer út úr húsi rétt fyrir 7 til að ná rútunni upp í Elkem þar sem ég vinn. Ég vinn til 15:30 og tek rútuna til baka. Ég geri í raun ekki mikið fram af æfingu sem byrjar klukkan 18:30. Eftir æfingu slaka ég bara á og fer síðan að sofa.“

Hversu oft í viku æfir þú?
„Það eru æfingar 5 – 6 x í viku en ég tek alltaf að minnsta kosti eina auka æfingu í viku.“

Hvað er skemmtilegast við fótboltann?
„Klárlega félagsskapurinn og tilfinningin að vinna og ná settum markmiðum.·

Framtíðardraumarnir í fótboltanum?
„Að komast sem lengst sem leikmaður. Draumurinn er að spila með A-landsliðinu.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst hjá þér í leik?
-„tli það sé ekki í leik á móti Haukum 2015. Skoraði 2 mörk í þeim leik en fékk skráða þrennu. Mjög gaman fyrir varnarmanninn sem skorar ekki oft.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan fótbolta?
„Bara þetta týpíska, vera með fjölskyldu og vinum og ferðast.“

Ertu hjátrúarfull? Ef svo er hvernig?
„Myndi ekki segja hjátrúarfull en á leikdag reimi ég aldrei skónna mína fyrr en ég er komin út á völl og tilbúin í upphitun.“

Staðreyndir:

Nafn: Aníta Sól Ágústsdóttir
Aldur: 19 ára (20 á þessu ári)

Besti maturinn: Kjúklingurinn og kjötið sem pabbi eldar.
Besti drykkurinn: Íslenska vatnið.
Besta lagið/tónlistin: Hlusta bara mikið á það sem er í útvarpinu og vinsælt þessa stundina.
Á hvað ertu að horfa þessa dagana? Prison Break voru að byrja aftur þannig ég er að fylgjast með þeim og svo eru nokkrir sem ég fylgist alltaf með t.d. Scandal og The Bachelor.

Ættartréð:
Foreldrar: Ágúst Hrannar Valsson (39 ára), Margrét Inga Guðbjartsdóttir (38 ára).
Systkini: Elísa Eir Ágústsdóttir (17 ára), Arnór Valur Ágústsson (10 ára).

x

Aníta Sól með íslenska landsliðinu.
Aníta Sól með íslenska landsliðinu.