„Við höfum alltaf verið sannfærð um að við séum að fara að tapa í hinum viðureignunum í þessari keppni. Ég held að það verði engin breyting á því enda hefur það gefist vel hingað til“ segir Örn Arnarson og glottir.
„Öddi“ er einn af þremur liðsmönnum hins geysisterka Útsvarsliðs Skagamanna sem keppir í undanúrslitum gegn Hafnarfirði á föstudagskvöldið í beinni útsendingu á RÚV.
Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir og Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir hafa ásamt Erni staðið sig gríðarlega vel það sem af er vetri í þessari skemmtilegu keppni.
„Við erum ótrúlega ánægð með árangurinn og erum komin langt fram úr okkar væntingum. Í raun gerum við lítið annað en að fara í hvern þátt til þess að njóta þess að keppa og hafa gaman að þessu. Að okkar mati er Útsvarskeppnin og þátturinn ekkert annað en skemmtiþáttur. Þrátt fyrir að þetta sé allt saman gríðarlega skemmtilegt þá blundar Skagamaðurinn í okkur öllum. Það þýðir bara eitt – okkur langar til að sigra,“ segir Örn Arnarson.