Valdís Þóra byrjaði með látum í Sviss

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi byrjaði gríðarlega vel á LET Access mótaröðinni í dag. Mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu á eftir LET Evrópumótaröðinni þar sem Valdís Þóra er með keppnisrétt.

Mótið fer fram í Sviss og lék Valdís á 70 höggum eða -2. Valdís er í 8.-12. sæti og er aðeins tveimur höggum frá efsta sætinu.

Valdís hóf leik á 10. braut og byrjaði á því að fá fugl, hún fékk tvo fugla á fyrri 9 holunum og tvo skolla. Hún lagaði stöðu sína á seinni 9 holunum með tveimur fuglum og hún tapaði ekki höggi.

Valdís Þóra hefur leikið á þremur mótum á LET Evrópumótaröðinni, sem er sú sterkasta í Evrópu, og hefur hún komist í gegnum niðurskurðinn á þeim öllum.

Þetta er í annað sinn sem Valdís Þóra keppir á LET Access mótaröðinni á þessu ári. Hún lék á móti í Frakklandi í mars en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.