Skagamenn í úrslit í Útsvarinu – en hvar var hún „Villa“?

Það var mikil spenna í gær þegar Útsvarslið Akraness hafði betur gegn Hafnfirðingum í undanúrslitum Útsvars á RÚV. Í aðdraganda viðureigninnar var varamaðurinn Valgaður Lyngdal Jónsson ræstur út til þess að taka sæti Vilborgar Þórunnar Guðbjartsdóttur (Villa) sem var á Ísafirði og flugi sem hún ætlaði að taka til Reykjavíkur var fellt niður.

Valgarður, Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir og Örn Arnarson sýndu allar sínar bestu hliðar og fengu 65 stig gegn 46 stigum Hafnarfjarðar.

Skagamenn fá Grindavík eða Fjarðabyggð í úrslitum en þau lið eigast við 19. maí í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Á vef RÚV kemur eftirfarandi fram um undanúrslitaviðureignina:

„Hafnfirðingar fóru betur af stað og voru með sex stiga forystu eftir bjölluspurningarnar. Bæði liðin sýndu snilldartakta á leiksviðinu en Skagamenn náðu þó að minnka forskot Hafnfirðinga um tvö stig.

Í orðaruglinu varð nokkur viðsnúningur því Skagamenn fundu alla flokka og gátu skilgreint þrjá þeirra. Hafnfirðingar náðu aðeins að raða saman einum flokki áður en tíminn rann út, en tókst þó að finna út úr því, fyrir hvað hver stóð. Eftir orðaleikinn var lið Akraness komið með þriggja stiga forystu, sem það jók síðan við það sem eftir lifði þáttar.

Akranes mætir annað hvort Fjarðabyggð eða Grindavík í úrslitaviðureigninni. Fjarðabyggð og Grindavík eigast við 19. maí. Lið Akraness var skipað þeim Gerði Jóhönnu Jóhannsdóttur, Valgarði Lyngdal Jónssyni og Erni Arnarsyni. Lið Hafnarfjarðar skipuðu Guðlaug Kristjánsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Tómas Geir Howser Harðarson.“