Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni tók gott stökk á heimslistanum í golfi eftir góðan árangur hennar á LET Access mótaröðinni í Sviss um liðna helgi. Valdís Þóra er í sæti nr. 602 á heimslistanum og fór upp um 50 sæti. Valdís Þóra var að leika á næst sterkustu mótaröð Evrópu en hún er með keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu, LET mótaröðinni.
Valdís endaði í fimmta sæti á mótinu í Sviss um s.l. helgi. Hún lék hringina þrjá á pari vallar samtals, 70-71-75. Valdís var aðeins þremur höggum frá efsta sætinu og er þetta næst besti árangur hennar á næst sterkustu mótaröð Evrópu.
Valdís Þóra er í 22. sæti á stigalista LET Access mótaraðarinnar eftir tvö mót á þeirri mótaröð sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Á sjálfri LET Evrópumótaröðinni er Valdís Þóra í 71. sæti á stigalistanum eftir þrjú mót á þessu tímabili.