Auglýsing frá Icelandair þar sem að landslið kvenna í fótbolta er til umfjöllunnar hefur vakið mikla athygli frá því hún var sýnd í gær í fyrsta sinn. Auglýsingin segir allt sem segja þarf en rauði þráðurinn er að leikmenn landsliðs kvenna hafa í gegnum tíðina þurft að glíma við ýmsar hindranir á leið sinni á toppinn.
„Mér finnst þessi auglýsing geggjuð, svo einfalt er það. Ég er örugglega búin að horfa á hana 10 sinnum frá því í gærkvöldi,“ segir Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir, sem leikur með íslenska landsliðinu og er atvinnumaður hjá Djurgården í Stokkhólmi í Svíþjóð.
Margir hafa rýnt í sögurnar í þessu myndbandinu og þykir einn leikmaðurinn sem „stelur“ takkaskóm frá bróður sínum ansi líkur Hallberu. Hún kannast ekki sjálf við að vera fyrirmyndin í þessari auglýsingu.
„Ég þurfti sem betur fer aldrei að stela takkaskóm frá bræðrum mínum. Ég veit að flestar fótboltastelpur kannast við það að koma í öðru sæti á eftir strákunum þegar kemur að ýmsum hlutum tengdum fótboltanum,“ sagði Hallbera við skagafrettir.is í morgun.
Sterk liðsheild. Sterkir einstaklingar. Framundan er EM 2017 í Hollandi. Óstöðvandi #FyrirÍsland pic.twitter.com/zg9Gq3owvA
— Icelandair (@Icelandair) May 9, 2017