Spennandi „Djassdagar“ framundan hjá á Skaganum

Í byrjun næstu viku hefjast Djassdagar á Akranesi sem listafélagið Kalman stendur á bak við. Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti í Akraneskirkju og kórstjóri kórs Akraneskirkju, stofnaði listafélagið árið 2013.

„Það hefur kannski ekki farið mjög mikið fyrir okkur í Kalman en við höfum samt sem áður staðið á bak við 45 listviðburðum frá stofnun félagsins. Markmiðið með stofnun Kalman á sínum tíma var að lífga enn frekar upp á ágæta menningaflóru sem er hér á Akranesi.  Og það hefur tekist með ágætum þótt við segjum sjálf frá. Kalman starfar í nánu samstarfi við hið öfluga tónlistarlíf sem við Akraneskirkju sem og aðra sem hafa áhuga á góðu og göfugu listasamfélagi. Starf Kalman er ávallt í þróun en markmiðið er að bjóða upp á eina tónleika í mánuði yfir vetrartímann, standa fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og öðru sem býður upp á listsköpun og jákvætt umhverfi,“ segir Sveinn Arnar í samtali við skagafrettir.is.

Á Djassdögum koma fram frábærir listamenn. „Þar má nefna Skagamanninn Þorleif Gauk, munnhörpuleikara, en hann er í hópi fjölmargra hæfileikaríkra listamanna sem ætla að krydda menningarlífið hér á Akranesi enn frekar í næstu viku,“ segir Sveinn Arnar.

Hægt er að kaupa miða í forsölu og tryggja sér þá einnig 20% afslátt af mat á Gamla Kaupfélaginu fyrir hverja tónleika gegn framvísun miða.

Djassdagarnir fara fram 15., 16. og 17. maí og á þeim verða þrennir jasstónleikar haldnir á Akranesi. Allir tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og eru um klukkustundar langir.

Mánudagskvöldið 15. maí heldur Sönghópurinn við Tjörnina tónleika í Vinaminni ásamt djasssveit Fríkirkjunnar. Sálmahugtakið verður skoðað í víðu samhengi og flutt verða lög í djassútsetningum eftir Gunnar Gunnarsson, Sigurð Flosason, Tómas R. Einarsson, John Höybye og Lars Jansson. Flytjendur auk Sönghópsins eru Gunnar Gunnarsson píanóleikari, Örn Ýmir Arason, kontrabassi, Aron Steinn Ásbjarnarson, saxófónn og Gísli Páll Karlsson, slagverk.

 

Þorleifur Gaukur Davíðsson.
Þorleifur Gaukur Davíðsson.

Þriðjudaginn 16. maí er síðan komið að heimamanninum Þorleifi Gauki munnhörpuleikara. Hann er mættur á land eftir nám í Berklee College of Music. Í þetta skiptið tekur hann með sér Ethan Jodziewicz, einn fremsta Roots-bassaleikara heims. Þeir félagar hafa verið að kanna tengsl old-time/bluegrass tónlistar og jazz og munu leiða tónleikagesti í allan sannleikann um þá útkomu á Gamla Kaupfélaginu.

Síðustu tónleikarnir verða síðan miðvikudaginn 17. maí en þá mun píanótríó Agnars Más Magnússonar koma fram. Á tónleikunum mun tríóið leika efni af nýútkomnum geisladiski og þjóðlög í bland. Á síðasta ári gaf Agnar frá sér geisladiskinn Svif og er tónlistin öll frumsamin. Meðleikarar Agnars verða Scott McLemore trommuleikari og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson bassaleikari sem einnig voru Agnari innan handar við gerð plötunnar.

Það er mikil gróska í íslenskum djassheimi og gaman að geta fengið þessa frábæru listamenn hingað á Akranes.

Allir tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og eru um klukkustundar langir. Miðaverð á tónleikana er kr. 2.500 en styrktaraðilar Kalmans, Kalmansvinir, greiða kr. 1.500. Hægt er að kaupa miða í forsölu og tryggja sér þá einnig 20% afslátt af mat á Gamla Kaupfélaginu fyrir hverja tónleika gegn framvísun miða.

Hægt er að panta miða í forsölu með því að hringja í síma 865-8974 eða senda póst á netfangið [email protected]

18447802_1340944142660990_751631162_n 18386605_1340944145994323_850081861_n 18452459_1340944189327652_505919444_o