Hið öfluga, myndarlega og bráðsnjalla lið Skagamanna keppir til úrslita í Útsvarinu á RÚV í kvöld. Mótherjarnir eru lið Fjarðabyggðar. Í undanúrslitum sigraði Akranes lið Hafnarfjarðar, 65-46 og Fjarðabyggð hafði betur gegn Grindavík 63-39. Bein útsending hefst kl. 20:05 í kvöld.
Lið Skagamanna verður þannig skipað: Örn Arnarson, Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir, Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir.
Örn Arnarson, einn liðsmanna Útsvarsliðsins, segir að það sé opið fyrir þá sem vilja sjá keppnina í sjónvarpssalnum.
„Mæting fyrir áhorfendur er klukkan 19:30. Það er vert að taka það fram að þetta er öllum opið og ekki háð sérstöku boði frá okkur í liðinu. Það væri gaman að sjá mörg kunnugleg andlit. Vonum að þetta verði skemmtilegt. Við munum reyna að leggja okkar að mörkum til að svo verði. Að vera komin svona langt er sigur í sjálfu sér, búin að ná markmiðinu sem við settum okkur. Allt sem gerist umfram er bara bónus,“ segir Örn Arnarson.
Gerður Jóhanna segir við Skagafréttir að undirbúningur liðsins hafi verið hefðbundinn. „Fjarðabyggð er draumaandstæðingurinn okkar og við höfum aðeins gefið í með því að spila QuizUp að undanförnu, bara til að auka vinnsluhraðann í heilabúinu,“ segir Gerður Jóhanna.
Leið Akraness í úrslit:
5. maí: Akranes – Hafnarfjörður: 65-46.
12. apríl: Akranes – Kópavogur: 56-53.
27. jan: Sandgerði – Akranes: 61-74.
7. okt: Árborg – Akranes: 72-80.
Leið Fjarðabyggðar í úrslit:
19. maí: Fjarðabyggð – Grindavík: 63-39.
7. apríl: Fjarðabyggð – Ölfus: 108-46.
13. jan: Fjarðabyggð – Reykjavík: 110-55.
9. sept: Fjarðabyggð – Fljótsdalshérað: 85-54.
Umsjónarmenn eru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Spurningahöfundar: Vera Illugadóttir, Ævar Örn Jósepsson og Sigyn Blöndal. Dómari: Ævar Örn Jósepsson. Stjórn útsendingar: Helgi Jóhannesson.