„San Marínó er frábært land, fallegt og með einstaka menningu. Það var frábær upplifun að fá tækifæri með sundlandsliðinu á Smáþjóðaleikunum og hópurinn sem ég var með gerði þessa ferð ógleymanlega,“ segir sundmaðurinn úr ÍA Ágúst Júlíusson sem var fyrirliði íslenska landsliðsins í sundi á Smáþjóðaleikunum í San Marinó.
Árangur íslenska sundfólksins á Smáþjóðaleikunum var frábær að venju en ferðlagið frá Íslandi var heldur skrautlegt.
„Þetta byrjaði með ógleymanlegu 48 tíma ferðlagi frá Íslandi. Tvær flugferðir, þrjár rútuferðir, þrjár lestarferðir og ein bátsferð. Fluginu okkar var aflýst í London þegar við vorum á leiðinni til San Marínó og sundfólkið sat eftir í súpunni ásamt körfuboltalandsliðunum. Það tók við atburðarás þar sem enginn vissi hvert við vorum að fara eða hvernig við kæmumst frá London. Það var allt reynt, þetta gekk upp, og við vorum mætt á hótelið fjórum tímum fyrir upphitun í fyrsta keppnishlutann.“
Ágúst var fyrirliði íslenska liðsins og var honum sýndur mikill heiður með því vali.
„Þetta var skemmtileg verkefni og heiður að fá slíka ábyrgð. Í raun var þetta auðvelt því hópurinn var 100% samstilltur og allir með hugann á réttum stað. . Ég og Davíð Hildiberg vorum elstir í hópnum og við fengum mikið hrós frá landsliðsþjálfaranum hversu góðar fyrirmyndir við vorum fyrir þá sem yngri eru. Það var gott að heyra.“
Árangur íslenska liðsins var góður og segir Ágúst að sundíþróttin sé á réttri leið á Íslandi.
„Það er mikil samkeppni um sæti í t.d. Boðsundsveitunum og árangurinn hjá konunum var efirtektarverður.“
Ágúst náði bronsverðlaununum í 100 metra flugsundi og var 4×100 m boðsundssveit Íslands sem setti nýtt Íslandsmet.
„Metið sem við bættum var gott og það sýnir styrkleikann á liðinu núna. Mér tókst vel upp í flugsundssprettinum og hef aldrei farið jafnhratt. Við náðum að undirbúa okkur vel fyrir þessa leika og ég synti mikið í 50 metra lauginni í Hafnarfirði. Það eina sem mátti fara betur var ferðlagið til San Marínó en það var ekkert sem við gátum gert í því,“ segir Ágúst en sveitina skipuðu Davíð Hildiberg, Viktor Máni og Aron Örn.
Í desember á þessu ári verður keppt á EM í 25 metra laug og þar ætlar íslenska sveitin að komast í úrslit. „Við eldri strákarnir ætlum að æfa meira saman til að ná okkar markmiðum. Ég er mjög spenntur að vinna með strákunum og okkar þjálfurum til að gera gott boðsundslið fyrir EM-25,“ segir landsliðsmaðurinn og Skagamaðurinn Ágúst Júlíusson.