Frábær árangur hjá yngri kylfingum Leynis í golfinu

Yngri kylfingar úr Golfklúbbnum Leyni hafa náð frábærum árangri á undanförnum vikum á Íslandsbankamótaröð Golfsambands Íslands. Ingimar Elfar Ágústsson sigraði í flokki 14 ára og yngri á Áskorendamótaröðinni í Sandgerði og Björn Viktor Viktorsson endaði í öðru sæti á sjálfri Íslandsbankamótaröðinni í flokki 14 ára og yngri sem fram fór á Hólmsvelli í Leiru.

Alls tóku fimm keppendur frá Leyni þátt á Áskorendamótaröð Íslandsbanka í Sandgerði. Mótaröðin er fyrir þá kylfinga sem vilja öðlast meiri keppnisreynslu áður en þeir fara að keppa á sjálfri Íslandsbankamótaröðinni. Ingimar Elfar sigraði eftir harða baráttu við félaga hans úr Leyni, Gabríel Þór Þórðarson. Þeir hafa báðir verið í verðlaunasætum á fyrstu tveimur mótum Áskorendamótaraðarinnar.

Fjórir keppendur voru frá Leyni á Íslandsbankamótaröðinni á Hólmsvelli í Leiru. Tveir keppendur í flokki 17-18 ára sem voru að stíga sín fyrstu skref á þessari mótaröð og einn keppenda í flokki 15-16 ára og einn í flokki 14 ára og yngri. Það bar helst til tíðinda að Björn Viktor Viktorsson endaði í 2. sæti eftir að hafa leitt flokkinn eftir fyrsta dag. Frábær árangur hjá Birni sem hefur hafnað í 2. sæti á fyrstu 2 mótunum á Íslandsbankamótaröðinni.