Kolbrún S. Kjarval er bæjarlistamaður Akraness árið 2017 en frá því var greint þann 17. júní og kemur fram á vef Akraneskaupstaðar.
Kolbrún er fædd í Reykjavík í byrjun árs 1945 en flutt eins árs gömul til Danmerkur þar sem hún bjó til fimm ára aldurs. Til dagsins í dag hefur hún ýmist búið í Danmörku eða á Íslandi. Lengst bjó hún á mið Jótlandi en þar bjó hún í 13 ár. Hún hefur búið á Akranesi frá árinu 2008 og á eina dóttur.
Kolbrún hóf leirlistarnám áður en hún varð tvítug og stundaði nám á ýmsum stöðum um margra ára skeið bæði í Danmörku og á Bretlandi. Þá hefur hún jafnframt kennt leirlist í Danmörku í þrjá áratugi meðfram eigin listsköpun.
Kolbrún vinnur aðallega í leir en teikningar hennar og vatnslitamyndir bera einnig sérstæðan stíl hennar sem er undir sterkum áhrifum frá einstakri náttúru Íslands og dýralífi landsins. Fuglarnir hennar eru orðnir nokkurs konar einkennismerki Kolbrúnar en fuglaþemað teygir anga sína út í flestar hliðar listsköpunar hennar.
Kolbrún hefur haldið tíu einkasýningar og hlotið mikið lof fyrir. Ein þeirra Sköpunargleði var haldin í Kirkjuhvoli hér á Akranesi árið 2012. Hún hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga nú síðast í Danmörku í apríl á þessu ári og þá má einnig nefna sýninguna Afstaða – Af stað sem var sett upp í Garðalundi, skógrækt Akurnesinga, árið 2012.
Kolbrún er búsett að Kirkjubraut 48, sem margir kannast við sem Arnardal og þar er hún einnig með vinnustofu sína. Þar hefur hún tekið á móti gestum á undanförnum árum og mun gera áfram en það vissara að hringja á undan sér til að tilkynna komu sína.