Heimir Fannar Gunnlaugsson, formaður uppeldissviðs Knattspyrnufélags Akraness, skrifaði eftirfarandi pistil vegna Norðurálsmótsins sem hófst í dag á Akranesi.
Kæru foreldrar og forráðamenn,
Saman stöndum við fyrir einhverju glæsilegasta knattspyrnumóti sumarsins, Norðurálsmótið fyrir 7. flokk drengja. Mótið er oftast nær fyrsta stóra mót þessara drengja og því mikilvægt sem slíkt. Margir tala um að Norðurálsmótið sé frábært vegarnesti fyrir næstu mót vegna þess hvernig fyrirkomulag mótsins, skipulag og umgjörð eru fyrsta flokks. Öll þau ár sem ég hef tekið þátt í mótinu sem foreldri hefur okkur foreldrum verið þakkað sérstaklega fyrir hlýtt viðmót og frábæra vinnu. Ég vil að þið takið þetta til ykkar hvert og eitt.
Mótið er einnig líflína knattspyrnufélagsins og grundvöllur þess að við getum boðið upp á það umhverfi sem er hér á Akranesi. Knattspyrnufélagið hefur kosið að fara þá leið að vera með reynslumikla einstaklinga í þjálfun á öllum stigum yngriflokka félagsins. Það er alls ekki sjálfsagt mál og Norðurálsmótið er ein helsta ástæða fyrir því að við getum staðið undir þessu gagnvart ykkur sem og gagnvart krökkunum. Markmið okkar sem knattspyrnufélags er að undirbúa einstaklinga út í lífið – sumir verða knattspyrnumenn, aðrir verða vísindamenn og enn aðrir verða foreldrar. Allt skiptir þetta miklu máli og við teljum okkur hafa þar stóru hlutverki að gegna.
Núna þegar þetta stærsta mót ársins verður að veruleika og hingað streyma um 5000 manns til að taka þátt í Norðurálsmóti langar mig til að þakka ykkur öllum fyrir ykkar fórnir og frábæru vinnu. Án ykkar aðkomu að þessu móti sem og öðrum verkefnum á vegum knattspyrnufélagsins gætum við ekki staðið fyrir jafn frábæru íþróttastarfi og raun ber vitni. Hugsum um þetta þegar við tökumst á við verkefni helgarinnar, verum þákklát fyrir að geta tekið þátt, stolt af knattspyrnufélaginu ÍA sem stendur sig svo vel og umfram allt stolt af bænum okkar sem er frábær.
Kveðja með þakklæti í huga,
Fyrir hönd allra fulltrúa Uppeldissviðs KFÍA,
Heimir Fannar – Formaður