Valdís Þóra Jónsdóttir hefur leik í dag á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Mótið fer fram á Trump National Golf Club, Bedminster, N.J. og stendur það yfir í fjóra daga. Valdís er fyrsti íslenski kylfingurinn sem fær keppnisrétt á Opna bandaríska meistaramótinu og hún er annar íslenski kylfingurinn sem leikur á einu af risamótunum í golfíþróttinni.
Mótið er eitt af fimm risamótum hvers árs á LPGA mótaröðinni og komst Valdís inn í mótið með góðum árangri á úrtökumóti sem fram fór á Englandi í júní.
Valdís Þóra verður í ráshóp með Yan Liu frá Kína og áhugakylfingnum Dylan Kim í ráshóp fyrstu tvo dagana. Þær hefja leik kl. 14:20 að staðartíma eða 18:20 að íslenskum tíma. Á föstudaginn hefja þær leik kl. 8:35 að staðartíma eða 12:35 að íslenskum tíma.
Hlynur Geir Hjartarson, þjálfari Valdísar Þóru, verður kylfuberi hennar í mótinu en hann er jafnframt einn af þjálfurum hennar. Tómas Freyr Aðalsteinsson, íþróttasálfræðingur, er einnig í þjálfarateymi Valdísar og er hann mættur á keppnissvæðið til aðstoðar.
„Við förum inn í mótið með það að markmiði að slá eitt högg í einu og njóta þess að vera á einu stærsta golfmóti heims. Völlurinn ætti að henta Valdísi vel, hann er að sjálfsögðu mjög erfiður með háum karga og hraðinn á flötunum er gríðarlegur. Bara alveg eins og við mátti búast á US Open velli,“ segir Hlynur Geir en mótið fer fram á einum af mörgum golfvöllum sem eru í eigu Donald Trump Bandaríkjaforseta. Búist er við því að hann mæti á svæðið og er öryggisgæslan á vellinum gríðarleg að sögn Hlyns.
„Umgjörðin um þetta mót er engu lík og ekkert sem við Valdís höfum upplifað áður. Þetta er allt mjög stórt. Við höfum náð góðum æfingum hérna og leikið æfingahringi – þar sem Valdís sló fullt af góðum höggum,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson þjálfari og aðstoðarmaður Valdísar Þóru Jónsdóttur við golf.is í gær.