Knattspyrnulið Kára frá Akranesi heldur áfram að gera góða hluti í 3. deild karla í knattspyrnu. Í gær fór fram toppslagur gegn Vængjum Júpiters í Egilshöll. Þar hafði Kári betur, 2-0, í miklum baráttuleik.
Einar Logi Einarsson skoraði fyrsta markið á 16. mínútu og Óliver Darri Bergmann Jónsson innsiglaði sigurinn með marki á 87. mínútu. Þetta er í annað sinn á þessari leiktíð þar sem Kári hefur betur gegn Vængjum Júpiters.
Kári er á toppi deildarinnar með 21 stig en Vængir Júpiters eru í öðru sæti með 20 stig. Næsti leikur Kára er þann 21. júlí n.k. á Norðurálsvellinum gegn liði Berserkja.