Karla – og kvennalið Leynis lék um helgina í efstu deild á Íslandsmóti golfklúbba 2017. Karlaliðið lék á Kiðjabergsvelli og endaði liðið í 5. sæti af alls 8 klúbbum sem léku í efstu deild. Leynir lék gegn Golfklúbbnum Jökli frá Ólafsvík í leik um 5. sætið og er skemmst frá því að segja að Leynir vann allar fimm viðureignirnar.
Þar á undan hafði Leyni lagt sameiginlega sveit Golfklúbbs Fjallabyggðar og Golfklúbbsins Hamars frá Dalvík.
Frá vinstri: Efri röð: Ingi Fannar Eiríksson, Þórður Emil Ólafsson, Willy Blumenstein, Kristvin Bjarnason, Alexander Högnason. Neðri röð frá vinstri: Hannes Marinó Ellertsson, Helgi Dan Steinsson, Stefán Orri Ólafsson og Hróðmar Halldórsson: Mynd/GSÍ
Í riðlakeppninni tapaði Leynir naumlega gegn Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, og Golfklúbbi Reykjavíkur. Leynir sigraði Golfklúbb Kiðjabergs í lokaumferðinni í riðlakeppninni.
Þess má geta að GKG og GR léku síðan til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn þar sem GKG fagnaði sigri. Þar var Skagamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson í stóru hlutverki hjá GKG en hann er jafnframt íþróttastjóri Leynis en keppir fyrir GKG.
Lið Leyni var þannig skipað: Hannes Marinó Ellertsson, Helgi Dan Steinsson, Hróðmar Halldórsson, Ingi Fannar Eiríksson, Kristvin Bjarnason, Stefán Orri Ólafsson, Þórður Emil Ólafsson, Willy Blumenstein og Alexander Högnason var liðsstjóri.
Valdís Þóra Jónsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2017, var með kvennasveit Leynis sem lék á heimavelli í efstu deild kvenna. Það dugði ekki til að þekkja Garðavöll út og inn því Leynir féll úr efstu deild og leikur i 2. deild að ári. Í riðlakeppninni tapaði Leynir gegn GK, GKG, en náði jöfnu gegn Nesklúbbnum. Leynir lék því um sæti 5.-8. og þar var niðurstaðan fall í 2. deild eftir að hafa náð jöfnu gegn Oddi og tapað með minnsta mun gegn Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Valdís Þóra náði frábærum árangri í viðureignum sínum en hún tapaði ekki leik í keppninni. Alls lék Valdís fimm leiki og voru yfirburðir hennar miklir í öllum viðureignunum.
Lið Leynis var þannig skipað: Arna Magnúsdóttir, Arna Magnúsdóttir, Bára Valdís Ármannsdóttir, Elín Dröfn Valsdóttir, Friðmey Jónsdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Hulda Birna Baldursdóttir, Kristín Vala Jónsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir og Viktor Elvar Viktorsson var liðsstjóri.
Frá vinstri: Viktor Elvar Viktorsson, Hulda Birna Baldursdóttir, Elín Dröfn Valsdóttir, Kristín Vala Jónsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Bára Valdís Ármannsdóttir, Arna Magnúsdóttir og Friðmey Jónsdóttir. Mynd/Leynir.