Skagamaðurinn Jakob heimsmeistari í tölti á glæsihryssunni Gloríu

Skagamaðurinn Jakob Svavar Sigurðsson gerði sér lítið fyrir og fagnaði heimsmeistaratitlinum í tölti á HM íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi. Jakob, sem er í hestamannafélaginu Dreyra á Akranesi, keppti á hestinum Gloríu frá Skúfslæk í tölti og fjórgangi. Jakob var kjörinn íþróttamaður Akraness árið 2013 og er hann fyrsti hestmaðurinn sem hlýtur þá nafnbót. Með árangri sínum á HM er ljóst að Jakob kemur sterklega til greina í því vali í lok ársins. 

Á vefnum hestafrettir.is er sagt frá því að glæsihryssan Gloría frá Skúfslæk aðalstjarna Heimsleikanna í Hollandi að öllum öðrum hrossum ólöstuðum.

Glæsisýning Jakobs Svavars Sigurðssonar á hryssunni í töltkeppninni vann hug og hjörtu áhorfenda, enda enduðu þau langefst inn í úrslit með einkunnina 8.57. Næst hæstir inn í úrslit urðu svo Guðmundur Björgvinsson og Straumur frá Feti með 8.07 og þriðju Jóhann R. Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum með 8.03. Ekkert er öruggt fyrr en keppni lýkur en eins og staðan er núna virðist mjög líklegt að Jakob Svavar hampi Tölthorninu fræga í lok mótsins og standi uppi sem heimsmeistari í „dýrustu“ keppnisgrein íslenska hestsins töltinu.

 

Jakob Svavar segir að hann hafi fyrst og fremst hugsað um að sýna hryssuna af öryggi, en hann eigi eftir að geta sýnt hana á meiri orku í úrslitunum.

 

Flestir áhorfendur virtust sammála um að Gloría hafi aldrei verið betri en nú, einstaklega þjál og falleg á vellinum og margir hafa haft á orði að gaman sé að sjá að hrossi í þessum gæðaflokki sé hægt að ríða án nasamúls í svona stórri keppni. Samspil þeirra Jakobs og Svavars virtist fullkomið.

 

Jakob Svavar hefur keppt á hryssunni og sýnt hana í kynbótadómum allt frá árinu 2014. Hæst hefur Gloría hlotið 8.42 í kynbótadómi, þar sem hún var með 8.49 fyrir sköpulag og 8.38 fyrir hæfileika, skeiðlaus. Gloría er fædd hjá Sigurði V. Ragnarssyni, en hún er undan Glym frá Árgerði og Tign frá Hvítárholti sem er dóttir Gusts frá Grund. Jakob Svavar hefur verið skráður eigandi Gloríu frá því hún var veturgömul.