Yngri kylfingar úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi halda áfram að gera góða hluti á mótaröðum Golfsambands Íslands. Nýverið náði drengjasveit Leynis bronsverðlaunum á Íslandsmóti golfklúbba 15 ára og yngri.
Þar var Leynir hársbreidd frá því að leika um Íslandsmeistaratitilinn en naum tap gegn A-sveit GKG gerði það að verkum að Leynir lék um bronsverðlaunin gegn Keili úr Hafnarfirði.
A-sveit GKG stóð síðan uppi sem Íslandsmeistari í þessum aldursflokki, A-sveit Golfklúbbs Reykjavíkur varð í öðru sæti, Leynir í því þriðja og Keilir úr Hafnarfirði í fjórða sæti.
Sveit Leynis skipuðu þeir: Kristvin Bjarnason liðsstjóri, Bjarki Brynjarsson, Björn Viktor Viktorsson, Ísak Örn Elvarsson, Karl Ívar Alfreðsson og Gunnar Davíð Einarsson.
Lokamót Íslandsbankamótaraðar barna – og unglinga fór fram á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar um liðna helgi.
Þar náði Björn Viktor Viktorsson frábærum árangri og varð í öðru sæti í flokki 14- ára og yngri. Þetta var í þriðja sinn á þessu tímabili þar sem Björn Viktor náði öðru sætinu á mótaröð bestu kylfinga landsins í þessum aldursflokki. Björn Viktor varð í þriðja sæti í heildarstigakeppninni á Íslandsbankamótaröðinni 2017 sem er einn besti árangur sem yngri kylfingur Leynis hefur náð í langan tíma.
Piltar 14 ára og yngri:
1. Böðvar Bragi Pálsson, GR 8665 stig
2. Flosi Valgeir Jakobsson, GKG 7972.5 stig
3. Björn Viktor Viktorsson, GL 6232.5 stig
Í flokki 19-21 árs varð Axel Fannar Elvarsson úr Leyni í 9. sæti í heildarstigakeppninni en hann náði þriðja sætinu á Íslandsmótinu í holukeppni.
Stigameistarar í flokki 14 ár og yngri piltar: Hansína Þorkelsdóttir, Björn Viktor Viktorsson (GL), Böðvar Bragi Pálsson (GR), Flosi Valgeir Jakobsson (GKG) og Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir frá Íslandsbanka.