Bolfisksvinnsla hefst að nýju – Ísfiskur kaupir húsnæði HB Granda

Í gær var greint frá því að fiskvinnslan Ísfiskur hafi gengið frá kaupum á hluta húsnæðis HB Granda við Bárugötu. Samkvæmt frétt á RÚV verða 40 störf flutt á Akranes frá Kópavogi þegar fyrirtækið flytur starfssemi sína frá Kópavogi. Ísfiskur kaupir húsnæði HB Granda á 340 milljónir kr.

Í viðtali á RÚV segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks að fyrirtækið muni vinna 4000 tonn af ýsi og þorski á ári. Ísfiskur er rótgróið fyrirtæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 1980.

Miklar líkur eru á því að störf verði í boði fyrir fyrrum starfsmenn HB Granda sem lokaði bolfiskvinnslunni á Akranesi í gær.

„Það starfsfólk sem við fáum með okkur uppeftir eru kannski ekki allir sem vinna hjá okkur. Þar af leiðandi skapast rými fyrir einhverja til viðbótar og að sjálfsögðu myndum við fagna því að fá fólk sem hefur verið í húsinu til ára og áratuga til samstarfs við okkur, sem bæði þekkir húsið, kann að vinna fisk og býr á Akranesi,“ segir Albert við RÚV.

Bæjarstjórn Akraness sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í gær.

Bæjarstjórn Akraness fagnar áformum fiskvinnslufyrirtækisins Ísfisks hf um að hefja starfsemi á Akranesi í kjölfar þess að náðst hefur samkomulag um kaup félagsins á hluta fasteigna HB Granda hf að Bárugötu 8-10 á Akranesi.

 

Bæjarstjórn býður fyrirtækið og starfsfólk þess hjartanlega velkomið í bæjarfélagið og er það góð viðbót við þá fjölbreyttu atvinnustarfsemi sem þegar er til staðar á Akranesi og mun styrkja fiskvinnslu á Akranesi og afleidda starfsemi. Ánægjulegt er að forsvarsmenn HB Granda hafi unnið markvisst að því að ljúka samningum við Ísfisk í dag þegar bolfiskvinnslu HB Granda á Akranesi stöðvast.

 

Er það von bæjarstjórnar að í þessu felist enn frekari tækifæri fyrir fiskvinnslu á Akranesi sem tryggi okkar fólki og nýjum íbúum með sérhæfingu á þessu sviði fleiri stoðir en eru til staðar í dag. Áfram verður unnið að frekari lausnum svo Akraneshöfn muni styrkjast sem fiskihöfn, þannig að Akranes verði áfram rótgróinn útgerðarbær og það skapist farvegur fyrir frekari nýsköpun og atvinnusókn.