Kvennalið ÍA í knattspyrnu lauk keppnistímabilinu í næst efstu deild með stórsigri gegn Sindra frá Hornafirði á laugardaginn. Leikurinn endaði 6-0 og var þetta áttundi sigurleikur ÍA á tímabilinu. Liðið endaði í 5. sæti deildarinnar með 27 stig en liðin sem fóru upp í Pepsi-deildina voru HK/Víkingur með 39 stig og Selfoss með 36 stig.
Mörk ÍA í lokaleiknum skoruðu þær, Bergdís Fanney Einarsdóttir, Aldís Ylfa Heimisdóttir (2), Unnur Ýr Haraldsdóttir, Ruth Þórðar Þórðardóttir, Hrafnhildur Arín Sigfúsdóttir.
Maren Leósdóttir var markahæsti leikmaður ÍA í sumar með 9 mörk en Bergdís Fanney skoraði 7 mörk. Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði 5 mörk líkt og Ruth Þórðar Þórðardóttir.
Að venju voru seldir happdrættismiðar í hálfleik og að þessu sinni var vinningurinn málverk eftir Ernu Hafnes. Á meðfylgjandi mynd tekur Hulda Margrét Brynjarsdóttir, leikmaður meistaraflokks, við málverkinu fyrir hönd móður sinnar en með henni á myndinni eru Sævar Freyr Þráinsson, Svala Hreinsdóttir, Elfa Björk Sigurjónsdóttir, Sigríður Valdemarsdóttir og Magnús Guðmundsson.
Alls léku 27 leikmenn með ÍA í sumar og skoraði félagið alls 39 mörk.