Guðrún og Guðmundur tóku þátt í að safna 10 milljónum kr.

Guðrún Sigríður Gísladóttir og Guðmundur S. Jónsson og félagar þeirra í íslenska Team Rynkeby hjólreiðaliðinu náðu frábærum árangri í sumar. Mikil ævintýraferð hópsins skilaði af sér tæplega 10 milljónum kr. í söfnun sem var tileinkuð Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna á Íslandi. Í gær kom hópurinn saman og afhenti söfnunarféð í Smáralind í Kópavogi. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur hópur tekur þátt í þessu verkefni.

Hér má lesa nánar um verkefnið sem þau Guðrún og Guðmundur tóku þátt í. 

Guðrún og Guðmundur hjóluðu ásamt liðsfélögum sínum 1.327 km. á aðeins 8 dögum. Samtals eyddu þau tæplega 60 klst á hjólinu sjálfu á leið sinni frá Kaupmannahöfn til Parísar í Frakklandi.

„Algjörlega frábært verkefni með yndislegu fólki sem sýndi og sannaði að allt er hægt með jákvæðni og samheldni. Þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni. Kærar þakkir fyrir góðar kveðjur og hvatningu, þær veittu auka kraft,“ skrifaði Guðrún á fésbókarsíðu sína þegar verkefninu var lokið í sumar.