Það var mikill áhugi hjá landsmönnum að komast í Team Rynkeby hjólreiðaliðið frá Íslandi fyrir keppnina sem fram fer á næsta ári. Eins og fram hefur komið á skagafrettir.is þá tóku þau Guðrún Gísladóttir og Guðmundur Jónsson þátt í þessu verkefni í sumar þar sem þau hjóluðu frá Kaupmannahöfn í Danmörku til Parísar í Frakklandi – til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.
Í gær var greint frá því að Skagahjónin Guðrún og Guðmundur verði á ný með í liðinu á næsta ári og tveir Skagamenn til viðbótar bætast í hópinn. Gísli J. Guðmundsson rakari og Lilja Kristófersdóttir ætla að taka þátt í verkefninu með Team Rynkeby næsta sumar. Þau voru valinn úr hópi rúmlega 100 manns sem sóttu um að taka þátt. Guðrún og Guðmundur koma inn sem „reynsluboltar“ í liðið en það er venjan að um helmingur liðsins hafi farið í þetta verkefni áður.
Gummi var alveg gallharður að sækja strax um aftur en ég þurfti að hugsa mig aðeins um.
„Á næsta ári mun liðunum fjölga úr 44 liðum upp í 48 eða 49 lið. Í ár vorum við með 32 manna hóp en á næsta ári verða 42 í íslenska hópnum en það mega að hámarki vera 50 sem hjóla í hverjum hóp. Þar að auki er 8 manna þjónustuteymi sem fylgir liðinu. Gummi var alveg gallharður að sækja strax um aftur en ég þurfti að hugsa mig aðeins um. Þetta er mjög krefjandi verkefni svo ekki sé meira sagt. Við erum reynslunni ríkari og það er einstakt að fá tækifæri að taka þátt í svona verkefni – og vera hluti af jákvæðum og samstilltum hóp. Reynsluna munum við nýta í undirbúninginn í vetur. Við vildum einnig nýta fjárfestinguna sem við lögðum í hjólin sem við fengum í lok mars. Við höfum hjólað rúmlega 4000 km. á þeim og þurfum ekki að fjárfesta í nýjum hjólum þar sem að hjólin sem verða notuð á næsta ári eru nánast eins. Það er frábært að fá verkefni og markmið til að stefna sem gerir manni sjálfum gott og lætur gott af sér leiða fyrir samtök á borð við SKB,“ sagði Guðrún eldsnemma í morgun við skagafrettir.is – líklega nýkominn af æfingu.
Við erum reynslunni ríkari og það er einstakt að fá tækifæri að taka þátt í svona verkefni – og vera hluti af jákvæðum og samstilltum hóp.
Guðrún og Guðmundur tóku þátt í að safna 10 milljónum kr.
Hjóla frá „Köben“ til Parísar fyrir gott málefni
Gísli Guðmundsson, Björn Oddsson og Lilja Kristófersdóttir á leiðinni í hjólatúr.