Kalmanskórinn í fyrsta þættinum í Kórar Íslands – styðjum okkar fólk!

Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is verða Skagamenn áberandi í nýjum sjónvarpsþætti sem hefur göngu sína sunnudaginn 24. september. Kalmanskórinn frá Akranesi verður í hópi tuttugu kóra sem koma víðsvegar af landinu og keppa um titilinn Kór Íslands 2017. Friðrik Dór er kynnir í þættinum og þriggja manna dómnefnd hefur úrslitavald um að koma einum kór áfram úr hverjum þætti.

Fyrsti þátturinn er á sunnudaginn og er hann í opinni dagskrá. Fjórir kórar keppa í hverjum þætti og komast tveir áfram. Einn kór er valinn af dómnefnd og áhorfendur velja einn kór með símakosningu. Eins og áður segir er þátturinn í opinni dagskrá og er um að gera fyrir Skagamenn nær og fjær og að styðja við bakið á okkar fólki. Símanúmerið er 900-9002. 

Allir þættirnir verða í beinni útsendingu og eru vegleg verðlaun í boði fyrir sigurkórinn. Kórarnir þurfa að vera með tíu eða fleiri félaga til þess að geta tekið þátt og kórfélagar þurfa að vera 16 ára og eldri.

Eins og áður segir koma kórarnir frá öllu landinu. Þriggja manna dómnefnd er skipuð þeim Kristjönu Stefánsdóttur og Bryndísi Jakobsdóttur og Ara Braga Kárasyni. Sá síðastnefndi á Íslandsmetið í 100 metra hlaupi og er þar að auki einn besti trompetleikari landsins. Friðrik Dór Jónsson, tónlistarmaður, er kynnir í þessum þáttum.

Félagar í Kalmanskórnum hér á Akranesi hafa æft af krafti að undanförnu fyrir fyrsta þáttinn og ríkir tilhlökkun í hópnum að takast á við þetta skemmtilega verkefni.

Kalmanskórinn.