Akraneskaupstaður stendur vel fjárhagslega en það kemur fram í sex mánaða árshlutauppgjöri sem lagt var fram á fundi bæjarráðs 14. september s.l. Hér má lesa uppgjörið í heild sinni.
Eiginfjárhlutfall Akraneskaupstaðar í lok tímabilsins er 54,2% og veltufjárhlutfallið stendur í 2,1 á sama tíma og er Akraneskaupstaður vel í stakk búið til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar til næstu 12 mánaða.
Rekstur sveitarfélagsins á fyrstu sex mánuðum ársins gekk vel og heildartekjur samstæðu voru 48,7 m.kr. umfram það er áætlanir gerðu ráð fyrir eða samtals 3.543,5 m.kr.
Heildargjöld samstæðu á sama tímabili, án afskrifta og fjármagnsliða, námu 3.195,4 m.kr. og voru samtals 101,9 m.kr. undir því er áætlanir gerðu ráð fyrir.
Munar þar mest um gjaldaliðina þjónustu og orkukaup sem var tæpum 56 m.kr. undir áætlun sem og launagjöld án lífeyrisskuldbindinga sem var rúmum 44 m.kr. undir því er áætlanir gerðu ráð fyrir.
Rekstrarniðurstaða samstæðu eða hagnaður tímabilsins nam 303,9 m.kr. og framlegðarhlutfall (EBITDA framlegð) nam 9,8%.