Fyrir fjórum áratugum eða árið 1977 fagnaði ÍA Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu undir stjórn enska þjálfarans George Kirby sem var mættur á Akranes í annað sinn á ferlinum. ÍA liðið fékk Íslandsmeistarabikarinn að viðstöddu fjölmenni eins og sjá má á þessari mynd. Þrátt fyrir að myndin sé ekki í lit má glögglega sjá að guli liturinn er ekki áberandi í troðfullri stúkunni á Laugardalsvelli og stuðningsmenn ÍA hvergi að sjá.
Á fésbókarsíðu Jóns Gunnlaugssonar, sem er einn af þeim heiðursmönnum sem hafa skráð sögu ÍA í gegnum tíðina, kemur áhugverður staðreynd fram um þessa mynd. Verðlaunafhendingin fyrir Íslandsmótið 1977 fór fram í hálfleik á bikarúrslitaleiknum þar sem Reykjavíkurliðin Fram og Valur áttust við. Það væri án efa eitthvað sagt á samfélagsmiðlum ef slíkt yrði gert í dag.
Íslandsmeistarar ÍA í knattspyrnu karla 1977. Aftari röð f.v: George Kirby þjálfari, Guðjón Þórðarson, Sævar Guðjónsson, Jón Þorbjörnsson, Jón Áskelsson, Pétur Pétursson, Björn Lárusson, Kristinn Björnsson, Andrés Ólafsson, Kristján Sveinsson formaður Knattspyrnuráðs Akraness og Þröstur Stefánsson formaður Íþróttabandalags Akraness. Fremri röð f.v: Gunnar Gíslason, Karl Þórðarson, Jóhannes Guðjónsson, Jón Alfreðsson fyrirliði, Hörður Jóhannesson, Árni Sveinsson, Jón Gunnlaugsson, Sigurður Halldórsson og Guðbjörn Tryggvason.