Í gamla Landsbankahúsinu stendur yfir áhugaverð sýning þar sem fimm konur sýna verk sín. Sýningin var sett á laggirnar í tilefni þess að konurnar eiga allar stórafmæli á árinu 2017 en þær fagna allar 60 ára afmæli á þessu ári. Þær sem standa að þessari sýningu eru; Ásdís Þórarinsdóttir, Ingibjörg Gestsdóttir, Jenný Á Magnúsdóttir, Sesselja Björnsdóttir og Sigríður Rut Hreinsdóttir. Í tilkynningu frá hópnum segir9-15 að hugmyndin hafi orðið til á árgangsmóti og viðburðurinn er tilvalinn til þess að sameina gamla skólafélaga. Sýningin er öllum opinn og er hægt að skoða verkin alla virka daga frá 9-15.
Ásdís Þórarinsdóttir útskrifaðist með B. A. í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2000. Hún hefur auk þess setið mörg myndlistartengd námskeið í gegnum tíðina. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði á Íslandi og erlendis, s. s. í Sviss, Noregi og á Spáni. Frá útskrift hefur Ásdís aðallega unnið með olíu á striga og hefur íslensk náttúra veitt henni mikinn innblástur, sérstaklega litir vetrarlandslagsins og hin sérstæða íslenska birta. Í gegnsæjum,þunnum lögum byggja litirnir upp myndflötinn og fá þeir oft í flæði sínu að ráða framvindunni í verkum hennar.
Þannig leikur Ásdís sér með óhlutbundna túlkun á náttúrunni. Ásdís er með vinnustofu á Korpúlfsstöðum og rekur Gallerí Korpúlfsstaði ásamt öðrum listamönnum. Hún er félagi í SIM (Samtökum íslenskra listamanna) og NAS
(Norræna vatnslitafélaginu).
Ingibjörg Gestsdóttir er þjóðfræðingur og útskrifaðist frá HÍ vorið 2005. Hefur verið heimavinnandi undanfarin ár, en jafnframt verktaki hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands. Rak ásamt öðrum Gallerí Urmul í nokkur ár hér á Akranesi, þar sem seld voru verk eftir listamenn búsetta á Akranesi og nágrenni, og var lengi formaður þess félags sem rak galleríið. Árið 2012 héldu þessir listamenn sýningu þar sem öll verkin tengdust þjóðsögunni um illhvelið Rauðhöfða, en sagt er að Hvalfjörður dragi nafn sitt af hval þessum. Ingibjörg hefur mikinn áhuga á sögu fólksins í landinu og hvar og hvernig fólkið bjó hér forðum. Íslenska sauðkindin og afurðin hennar, ullin kemur þar sterkt inn, en hún hélt lífi í landanum hér áður fyrr, með sínum einstöku eiginleikum. Skírnarkjóll sá sem hér er til sýnis er einmitt úr ull, eingirni sem er ein afurð hennar. Hann var gerður í tilefni sýningarinnar um Rauðhöfða sem getið er hér að ofan. Drápan, Rauðhöfða saga sem hér er einnig var líka gerð í tilefni þessarar sýningar af föður Ingibjargar, Gesti Friðjónssyni, að hennar beiðni.
Jenný Á Magnúsdóttir er fædd og uppalin á Akranesi. Hún er sjálfmenntaður skrautritari og hefur starfað við það með öðru frá árinu 1982. Skrautritaði fyrir allar blóma- og bókabúðir á Skaganum meðan hún bjó þar. Sér nú um jarðarfararborða fyrir verslunina „18 Rauðar rósir“ síðan 2003, fyrir utan alls konar önnur verkefni eins og bækur, kort, meistarabréf og margt fleira. Jenný hefur alltaf haft mikinn áhuga á alls kyns handverki, m.a. seldi hún fígúrur úr trölladeigi í galleríi sem var á Akranesi í kringum 1985 til 2000. Kenndi skrautritun í opnu vikunni í FVA í nokkur ár. Málar og skrautritar á kort og muni með systur sinni (t.d. á postulín og striga) undir nafninu Systralist. Jenný er þekkt fyrir það að vera alltaf með eitthvað á prjónunum hvort sem það eru hugmyndir eða handverk.
Sesselja Björnsdóttir hóf listnám sitt í Beaux Arts í Frakklandi og lauk námi frá MHÍ 1989. Útskrifaðist síðan frá Margmiðlunarskólanum 1999. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis og verið með nokkrar einkasýningar. “Frumuppspretta listar Sesselju Björnsdóttur listmálara er náttúran. Alveg frá fyrstu tíð hefur hún verið að mála myndir undir áhrifum náttúrunnar og reynt að koma á striga áferð hennar, veðurofsa og göldrum. Sesselja er náttúrubarn og unir sér í gönguferðum meðfram sjónum, fjarri borgarókyrrð, helst uppi á fjöllum í óbyggðum fjarska. Hún stendur og fagnar dýrðinni í kyrrð og óblandaðri gleði. Hún fer á vinnustofuna með þessar upplifanir og glímir við að koma þeim í tvívíðu formi yfir til áhorfandans sem skoðar verkin hennar. Ástríða er ekki tilfinning, ástríða er ástand, náttúrulegt ástand sem nauðsynlegt er, til að geta komið frá sér þeirri andlegu iðju að skapa.” Sesselja er með vinnustofu á Hallveigarstöðum í 101 Reykjavík. Hún málar með olíu á striga og tekur óendanlega mikið af ljósmyndum.
Sigríður Rut Hreinsdóttir útskrifaðist frá málunardeild MHÍ vorið 1990. Hún sótti kvöld og dagskóla samhliða í Myndlistaskólanum í Reykjavík frá árunum 1985 – 1990. Áður hafði hún tekið áfanga á myndlistarbraut í Linderud Videregående skole í Oslo, Noregi, 1983. Hún hefur haldið 6 einkassýningar og nokkrar samsýningar. Myndefnið sækir Sigríður Rut aðalega í flóru Íslands. Flest mótífin eru náttúrutengd, hamingjusöm lauf og smáblóm og hefur hún sérstakt dálæti á laufum fífilsins sem hún hefur rýnt í og rannsakað. Hún notar nær eingöngu olíuliti. Hún hefur aðalega málað stór verk sem tók langan tíma að gera en langaði til að breyta til og gera litlar myndir og ákvað að leyfa því að koma sem vildi koma. Afraksturinn varð meðal annars sýning sem hún hélt í Grafíksalnum í Reykjavík og var rétt að ljúka. Sýninguna nefndi hún Smámyndir enda málvekin 20 x 20 cm. að stærð. Sýnir hún fjögur verk af þeirri sýningu á sýningu ´57 árgangsins.Sigríður Rut Hreinsdóttir er meðlimur í SÍM Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Grafíkfélaginu Íslensk Grafík. Hún er með vinnustofu að Seljavegi 32, 101 Reykjavík.