Gámaþjónustan hækkar þjónustustigið og Skagamenn eru sáttir

Gámaþjónusta Vesturlands ehf. tók við sorphirðu á Akranesi og sorpmóttökustöð Gámu á Höfðaseli þann 1.september síðastliðinn. Að sögn Lilju Þorsteinsdóttur rekstrarstjóra Gámaþjónustu Vesturlands ehf. hefur gengið mjög vel að sinna þjónustunni.

„Við erum svo heppin að hafa á að skipa frábæran hóp af starfsfólki og okkur hefur verið tekið mjög vel af íbúum Akraness,“ segir Lilja Þorsteinsdóttir rekstrarstjóri Gámaþjónustu Vesturlands sem tók nýverið við sorphirðu á Akranesi ásamt sorpmóttökustöð Gámu á Höfðaseli. Í viðtal á akranes.is bætir Lilja við að Skagamenn hafi lýst yfir ánægju sinni með bætta þjónustu, en endurvinnanlegt efni er hirt á tveggja vikna fresti í stað fjögurra vikna áður.

„Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um hvort verið sé að blanda endurvinnslu og almennum úrgangi saman í bílinn hjá okkur en það er misskilningur sem okkur er mikið í mun að leiðrétta. Þjónustunni er sinnt á tvískiptum bíl sem þýðir að viðkomu á hvern stað fækkar þar sem báðar tunnurnar eru teknar í einu, í sitthvort hólfið en það þýðir að sjálfsögðu umhverfisvænan ávinning í minnkun á útblæstri og hagkvæmni í söfnun.“

Næstu skref hjá Gámaþjónustunni er að gefa út kynningarbækling fyrir áramót og jafnvel væri gagnlegt að halda íbúafund þar sem fólk gæti komið með fyrirspurnir og komið sínum áherslum á framfæri varðandi framtíðarsýn í sorpmálum.

Á vef Akraneskaupstaðar er að finna helstu upplýsingar um sorphirðu á Akranesi.

Gámaþjónusta Vesturlands er einnig á facebook og þar er ýmislegt gagnlegt að finna fyrir viðskipavini fyrirtækisins.