Það var góð stemning á lokahófi yngri kylfinga Golfklúbbsins Leynis sem fram fór 1. október s.l. Dagurinn hófst með „shoot-out keppni“ þar sem 26 tóku þátt og stóð Björn Viktor Viktorsson uppi sem sigurvegari eftir harða keppni á milli æfingahópa Leynis. Í úrslitum kepptu þau Kristín Vala, Marínó Ísak, Björn Viktor og Kári Kristvins. Stór hópur af iðkendum og foreldrum þeirra rölti með í þessari keppni og myndaðist mikil spenna í þessu skemmtilega móti sem er vonandi komið til með að vera.
Lokahófið fór síðan fram í golfskálanum og verðlaun voru veitt fyrir Foot-Joy Titleist mótaröðina sem fram fór hjá Leyni í sumar. Fyrirtækið Íslensk Ameríska studdi vel við þá mótaröð sem hófst snemma sumars og stóð fram á haustið.
Barna – og unglingnefnd Leynis færir ÍSAM bestu þakkir fyrir stuðninginn
Veitt voru verðlaun til allra þeirra sem tóku þátt í GSÍ mótum sumarsins. Alls átti Leynir 31 keppendur á unglinga mótum á vegum GSÍ í sumar.
Sannarlega eftirtektarverður hópur sem hefur verið duglegur að æfa og keppa í sumar. Einnig voru veitt verðlaun fyrir mestu forgjafalækkun barna og unglinga í sumar en hjá strákum var Björn Viktor með 41% lækkun forgjafar og hjá stelpum var Kristín Vala Jónsdóttir með 39% lækkun.
Einnig voru veitt verðlaun fyrir árangur á Íslandsbankamótaröðinni og Áskorendamótaröð Íslandsbanka en þar hlutu þau Björn Viktor og Guðrún Nolan verðlaun fyrir árangur á Íslandsbankamótaröðinni sem og Kristín Vala og Gabríel Þór verðlaun fyrir góðan árangur á Áskorendamótaröð Íslandsbanka.
Að lokum voru Brellumeistarar GL krýndir en í ár voru það systkinin Kári og Klara Kristvinsbörn sem hlutu þau verðlaun fyrir frábær brellumyndbönd. Brellumeistarinn var skemmtileg keppni sem sett var á laggirnar í sumar en þar voru krakkarnir hvött til að mynda hópa um að taka upp brelluhögg og senda á Birgi Leif íþróttastjóra sem skipaði dómnefndina.