Fyrsti heimaleikur ÍA í 1. deild karla í körfuboltanum fer fram í kvöld þegar Hamar frá Hveragerði kemur í heimsókn. ÍA lék s.l. föstudag gegn Fjölni í 1. umferð Íslandsmótsins og endaði sá leikur með sigri Fjölnis 86-79. Alls eru 10 lið í 1. deildinni og verður leikinn þreföld umferð.
Leikur ÍA gegn Hamarsmönnum hefst kl. 19:15 í kvöld og er leikið í íþróttahúsinu við Vesturgötu. ÍA TV verður með beina útsendingu frá leiknum en að sjálfsögðu skorum við á Skagamenn að mæta á leikinn og styðja við bakið á okkar mönnum.
Hér er hægt að horfa á leikinn:
Lið ÍA er skipað blöndu af yngri og eldri leikmönnum. Bandaríkjamaðurinn Derek Daniel Shouse er mættur á ný í slaginn en hann skoraði 26 stig og tók 10 fráköst í fyrsta leiknum gegn Fjölni. Þaulreyndir kappar á borð við Fannar Helgason og Jón Orra Kristjánsson styðja við bakið á yngri leikmönnum ÍA í vetur og uppbyggingarstarfið heldur áfram.
Vesturland er áberandi í 1. deildinni í vetur en bæði Skallagrímur úr Borgarnesi og Snæfell úr Stykkishólmi mæta ÍA í vetur. Það er því spennandi vetur framundan í körfunni og áhugaverðir leikir á dagskrá í íþróttahúsinu við Vesturgötu.