Þórður Sævarsson, einn af forsvarsmönnum Klifurfélags Akraness, fór í mikla ævintýraferð í sumar með bandarískum félögum sínum. Þar settu þeir upp „Highline“ þrautir á ýmsum stöðum á Íslandi. Í þessari íþrótt er listin að ganga á línu sem er fest með öruggum hætti og eins og sjá má eru Þórður og félagar hátt yfir jörðu á þessum myndum.
Þeir sem stunda „Highline“ leggja mikla áherslu á öryggið og eru allir með öryggislínur strengdar í sig á meðan þeir ganga í þessum aðstæðum. Hópurinn fór að sjálfsögðu á Akrafjallið í þessum leiðangri en einnig var klifrað í Esjunni, á Snæfellsjökli og Skaftafellsjökli.